Fótbolti

Túfa saknaði fjöl­skyldunnar og snýr aftur til Ís­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Túfa á hliðarlínunni í leik Vals og Bodø/Glimt í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á sínum tíma.
Túfa á hliðarlínunni í leik Vals og Bodø/Glimt í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á sínum tíma. Vísir/Bára Dröfn

Knattspyrnuþjálfarinn Srdjan Tufegdzic, eða einfaldlega Túfa, hefur sagt af sér sem þjálfari Skövde í sænsku B-deildinni. Ástæðan er sú að hann saknar fjölskyldu sinnar sem er staðsett á Íslandi.

Frá þessu greinir félagið á samfélagsmiðlum sínum í kvöld. Þar segir að félagið þurfi því miður að kveðja Túfa sem hefur ákveðið að snúa aftur til Íslands.

Í tilkynningunni segir að Túfa finnist hann ekki hafa getað gefið allt sem hann á í starfið þar sem hann saknar fjölskyldu sinnar og það hafi einfaldlega tekið of mikla orku frá honum. Því hafi verið ákveði að best væri ef báðir aðilar færu sitt í hvora áttina.

Hinn 44 ára gamli Túfa tók við Skövde fyrr á þessu ári en þar áður hafði hann þjálfað Östers IF. Stýrði hann liðinu í tvo tímabil, það fyrra endaði liðið í 3. sæti og það síðara sæti neðar eða 4. sætinu.

Þar áður starfaði hann fyrir Val, Grindavík og KA hér á landi. Nú snýr hann aftur og er spurning hvort eitthvað af liðunum í Bestu deild karla sjái sér leik á borði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×