Handbolti

Töpuðu rétt eftir risasigurinn

Sindri Sverrisson skrifar
Þórir Hergeirsson getur eflaust dregið einhvern lærdóm af leiknum í kvöld, eftir risasigur á fimmtudag.
Þórir Hergeirsson getur eflaust dregið einhvern lærdóm af leiknum í kvöld, eftir risasigur á fimmtudag. EPA-EFE/Zsolt Czegledi

Lærimeyjar Þóris Hergeirssonar í norska kvennalandsliðinu í handbolta mættu heims-og ólympíumeisturum Frakka í annað sinn á þremur dögum í kvöld, og urðu að sætta sig við tap.

Liðin mættust aftur í Frakklandi í kvöld en eftir 34-22 sigur Noregs á fimmtudaginn þá voru það Frakkar sem unnu í kvöld, með sex marka mun, 25-19.

Frakkar voru 12-11 yfir í hálfleik en stungu svo af eftir hléið og komust til að mynda í 19-13. Góður leikur Lauru Glauser í marki Frakka hafði sitt að segja.

„Leikurinn var svolítið eins og við mátti búast. Frakkar bættu í og náðu betri leik, en við slökuðum aðeins á. Þetta var ekki okkar besti leikur en við gátum prófað hluti sem við tökum með okkur. Sem betur fer er langt í Ólympíuleikana,“ sagði Nora Mörk við VGTV en hún skoraði fimm mörk eftir að hafa verið hvíld í fyrri leiknum.

Noregur heldur nú undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana í París áfram en liðið á eftir að spila tvo leiki við Danmörku, 16. og 18. júlí, áður en að leikunum kemur. Þar verður Noregur með Danmörku í riðli en einnig með Þýskalandi, Slóveníu, Svíþjóð og Suður-Kóreu. Fyrsti leikur Noregs er við Svíþjóð 25. júlí.


Tengdar fréttir

Stelpurnar hans Þóris völtuðu yfir ólympíu­­meistarana

Norska kvennalandsliðið í handbolta, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, virðist vera á réttri braut nú þegar styttist í Ólympíuleikana í París. Liðið vann stórsigur á ríkjandi ólympíumeisturum Frakka í kvöld, 34-22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×