Handbolti

Elín Klara valin í lið mótsins á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir stóð sig frábærlega á heimsmeistaramótinu hjá 20 ára landsliðum þar sem Ísland náði sögulegum árangri.
Elín Klara Þorkelsdóttir stóð sig frábærlega á heimsmeistaramótinu hjá 20 ára landsliðum þar sem Ísland náði sögulegum árangri. @hsi_iceland

Íslenska handboltakonan Elín Klara Þorkelsdóttir var valin í liði mótsins á heimsmeistaramóti tuttugu ára landsliða sem lauk í Norður Makedóníu í gær. Íslensku stelpurnar urðu í sjöunda sæti sem er besti árangur Íslands á þessu móti.

Elín Klara er þarna að ná einstökum árangri en það er mikið afrek hjá henni að komast í úrvalslið mótsins þrátt fyrir að spila með landsliði sem spilar ekki um verðlaun á mótinu.

Elín Klara varð tólfti markahæsti leikmaður mótsins með 40 mörk í átta leikjum en hún nýtti 67 prósent skota sinna. 29 af 40 mörkum hennar komu eftir gegnumbrot. Hún fiskaði líka sjö leikmenn af velli í tvær mínútur.

Elín varð einnig í ellefta sæti yfir flestar stoðsendingar en hún fékk skráðar á sig 23 stoðsendingar. Hún kom því með beinum hætti að 63 mörkum íslenska liðsins á mótinu eða 7,9 mörkum í leik.

Elín var í úrvalsliðinu sem leikstjórnandi en aðrar í liðinu voru ungverski markvörðurinn Klára Zaj, danski vinstri hornamaðurinn Matilde Vestergaard, ungverska vinstri skyttan Lea Faragó, hollenska hægri skyttan Alieke van Maurik, franski hægri hornamaðurinn og franski línumaðurinn Lilou Pintat.

Hin franska Lylou Borg var valin mikilvægasti leikmaður mótsins en sú markahæsta var Jelena Vukcevic frá Svartfjallalandi með 74 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×