Spænska lögreglan hefur kallað út sjálfboðaliða og hjálparsamtök á eyjunni til þess að taka þátt í leitinni í dag. Leitin fer fram við gönguleiðir nærri bænum Masca og í Rural de Teno þjóðgarðinum, þar sem síðast er vitað um ferðir Slater. BBC greinir frá.
Hinn nítján ára gamli Jay Slater var mættur til Tenerife ásamt vinum sínum til að fara á tónlistarhátíðina NRC. Ekki hefur spurst til hans frá morgni 17. júní, þegar hann hringdi í vin sinn, sagði honum að hann ætlaði að ganga heim á leið af hátíðinni og að síminn hans væri við það að verða rafmagnslaus.
Almannavarnir á Tenerife, sem sjá um leitina, kölluðu í gær eftir sjálfboðaliðum sérhæfðum í að leita við erfiðar aðstæður. Fjörutíu þúsund pund, eða rúmar sjö milljónir króna, hafa safnast í sjóð gerðan til að fjármagna leitina.
Notast hefur verið við dróna, þyrlur og leitarhunda en sem fyrr segir hefur leitin ekki borið árangur.