Borgarstjóri segir að það ætti að vera hægt að byggja um fimm hundruð íbúðir á ýmsum stöðum í Grafarvoginum. Til að mynda við Hallsveg rétt við Gufuneskirkjugarðinn á bletti sem nú er þakinn lúpínu. Þar ætti að vera hægt að koma fyrir einbýlishúsum, raðhúsum, og jafnvel lítilli blokk.

Í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt sjáum við svæðin sem koma til greina í Grafarvogi og innan ferhyrnings áður nefnt svæði við Hallsveg. Þá sést svæðið betur á annarri mynd í þessari frétt.
Má segja að þið séuð að flytja þéttinguna út í úthverfin?
„Já, við erum að styrkja úthverfin. Aðallega erum við að bregðast við húsnæðisvanda. Efna markmið okkar um að efla húsnæðisuppbygginguna í Reykjavíkurborg,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Kosturinn við þessa leið væri að innviðir væru allir til staðar. Á sama tíma væru kynslóðaskipti að eiga sér stað í sumum úthverfanna þannig að margir eldri íbúar vilji kannski minnka við sig innan hverfisins. Þá væri þetta ný leið til að örva lóðaframboðið á meðan stóru skipulagsverkefnin mölluðu áfram.

„Mæta þessum litlu og meðalstóru verktökum sem vantar lóðir. Ráða kannski ekki við að kaupa stóra reiti,“ segir borgarstjóri. Á undanförnum þremur árum hefði fullgerðum íbúðum fækkað og farið undir eitt þúsund í fyrra.
Staðan væri hins vegar að breytast því allt árið í fyrra hófst bygging á 690 íbúðum samanborið við 605 íbúðir á fyrri hluta þessa árs. Víða í úthverfunum væru reitir með stórum ónýttum svæðum sem mætti byggja á en halda samt í græn svæði á milli eldri og nýrra húsa. Byrjað yrði í Grafarvogi en einnig væri verið að skoða Breiðholt, Grafarholt og Úlfarsárdal.
„Og það eru fjölmörg tækifæri til að efla um leið þjónustu og verslun. Bæta grænu svæðin í kjölfarið. Ég held að þetta sé frábært fyrsta skref. Við búumst við að geta sett fyrstu lóðirnar í sölu snemma á næsta ári. Við viljum vinna þetta hratt. Hér er tiltölulega einfalt að ráðast í uppbyggingu vegna þess að hér eru vegir og hér eru lagnir og lóðirnar verða fljótt byggingahæfar,“ segir Einar Þorsteinsson.
