Handbolti

Ís­lensku stelpurnar mæta Ung­verjum í átta liða úr­slitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslensku stelpurnar eru komnar í átta liða úrslit þrátt fyrir tap í dag.
Íslensku stelpurnar eru komnar í átta liða úrslit þrátt fyrir tap í dag. HSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri mun mæta Ungverjum í átta líða úrslitum HM sem nú fer fram í Norður-Makedóníu.

Ísland mætti Portúgal í seinni umferð milliriðilsins fyrr í dag. Fyrir leik var ljóst að bæði Ísland og Portúgal höfðu tryggt sér sæti í átta liða úrslitum og því börðust liðin um toppsæti riðilsins.

Portúgalska liðið hafði yfirhöndina stærstan hluta fyrri hálfleiks, en munurinn á liðunum varð þó aldrei meiri en tvö mörk. Íslensku stelpurnar náðu forystunni í stöðunni 11-10, en Portúgalir skoruðu seinustu tvö mörk fyrri hálfleiksins og leiddu í hálfleik, 11-12.

Svipaða sögu er að segja af fyrri hálfleik þar sem munurinn á liðunum varð aftur aldrei meiri en tvö mörk. Íslenska liðið leiddi um stund um miðbik seinni hálfleiks, en portúgölsku stelpurnar höfðu að lokum betur, 25-26.

Ísland endar því í öðru sæti milliriðils 4 og mun mæta liðinu sem hafnaði í fyrsta sæti milliriðils 2 í átta liða úrslitum næstkomandi fimmtudag. Íslenska liðið mun því kljást við Ungverja um sæti í undanúrslitum, en Portúgal mætir Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×