Skriðan féll á húsaþyrpingu í Lostallo-héraði. Viðbragðsaðilar hafa verið við leit frá í morgun en skriðan féll snemma í morgunsárið á íslenskum tíma. Fréttaveita AP hefur eftir William Kloter í svissnesku lögreglunni að vonir séu bundnar við það að finna þau sem saknað er á lífi.
Das Ausmass der Unwetterschäden in verschiedenen Landesteilen ist erschütternd. Meine Gedanken sind bei der betroffenen Bevölkerung. Ich danke den Einsatzkräften für ihren unermüdlichen Einsatz in dieser schwierigen Lage.
— Viola Amherd (@Violapamherd) June 22, 2024
„Umfang skaðans sem óveðrið hefur valdið víðs vegar um landið er átakanlegt. Hugur minn er hjá þeim sem orðið hafa fyrir áhrifum af því. Ég þakka viðbragðsaðilum fyrir óbilandi vinnu þeirra í þessum erfiðu kringumstæðum,“ skrifar Viola Amherd, forseti Sviss, í færslu á samfélagsmiðlinum X.
Auk skriðunnar hefur óveðrið undanfarna daga gert það að ófært er á vinsæla ferðamannaáfangastaðinn Zermatt. Mattervispa-á flæddi yfir bakka sína vegna mikillar úrkomu og yfir alla greiða vegi til þorpsins.
Yfirvöld í Sviss hafa varað íbúa á hættusvæðum við að dvelja í kjallörum og brýnt til fólks að halda sig frá ám sem flæða yfir.