Áttatíu og tveimur starfsmönnum var sagt upp á skrifstofum félagsins í lok maí. Þær uppsagnir segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair að tengist ekki uppsögnum fyrir helgi.
„Það er mikil árstíðarsveifla í okkar rekstri og í íslenskri ferðaþjónustu. Hún hefur eiginlega aukist eftir Covid. Við þurfum því færri flugmenn á veturna heldur en sumri. Þessar uppsagnir taka gildi frá og með október og við vonumst til þess að þessir flugmenn komi aftur til okkar í vor,“ segir Bogi sem ræddi stöðuna í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Það er erfitt að grípa til uppsagna en það er engu að síður staðan núna,“ bætir Bogi við.
Hann segir frekari uppsagnir ekki í kortunum.
„Útlitið til lengri tíma er mjög gott. Við erum að sjá minni eftirspurn eftir Íslandi sem ferðamannalandi núna heldur en við sáum í fyrra, og við reiknuðum með. Það eru nokkrir þættir sem spila þar inn í. Atburðirnir á Reykjanesi, Ísland er orðið dýrt í samanburði við samkeppnislöndin og síðan eru stjórnvöld hér að setja minni fjármuni í markaðssetningu á landinu.“
Markaðskerfið sé hins vegar svegjanlegt, með tengimörkuðum yfir hafið.
„Þess vegna erum við með viðamikla áætlun núna og svo verður í vetur líka. Þannig til lengri tíma er útlitið mjög gott fyrir Icelandair og Ísland sem ferðamannaland. Fjárhagsstaða félagsins gríðarlega sterk þannig við erum bara mjög brött á framtíðina.“
Bogi viðurkennir að minni eftirspurn hafi haft áhrif á reksturinn.
„En við getum nýtt sveigjanleika í leiðarkerfinu með því að breyta áherslum og það hefur bara gengið vel. En eftirspurnin hefur aðeins gefið eftir og við þurfum að bregðast við því í sameiningu,“ segir Bogi.