Körfubolti

Segist til­búinn að deyja á vellinum en fær lík­lega ekki að spila

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristaps Porziņģis lék á sínum tíma með Dallas og Kyrie Irving lék á sínum tíma með Boston.
Kristaps Porziņģis lék á sínum tíma með Dallas og Kyrie Irving lék á sínum tíma með Boston. EPA-EFE/CJ GUNTHER

Kristaps Porziņģis meiddist á fæti í sigri Boston Celtics á sínum gömlu félögum í Dallas Mavericks í öðrum leik úrslita NBA-deildarinnar í körfubolta. Óvíst er hvort hann geti verið með það sem eftir lifir úrslitaeinvígisins.

Það eru tæplega tvö og hálft ár síðan Mavericks skipti Porziņģis út og síðan þá hefur hann ekki enn náð að spila í Dallas. Nú er alls óvíst hvort þessi hávaxni Letti geti spilað á sínum gamla heimavelli þegar Celtics mætir til Dallas með það að markmiði að ganga frá einvíginu eftir tvo sigra í röð á heimavelli.

Hinn fjölhæfi Porziņģis var lengi vel meiddur á kálfa og gat því lítið spilað í úrslitakeppninni, það er þangað til í úrslitum. Nú er hann að glíma við meiðsli á vinstri fæti (e. torn medial retinaculum allowing dislocation of the posterior tibialis tendon) og sem stendur er heldur ólíklegt að hann geti spilað í kvöld, aðfaranótt fimmtudags.

„Það er í höndum læknateymisins hvort ég megi spila eða ekki. Það eina sem getur stöðvað mig er að mér verði einfaldlega bannað að stíga á völlinn og spila, það er það eina sem getur hindrað að ég spili leikinn,“ sagði Porziņģis um meiðslin en hann hefur glímt við ýmis meiðsli á ferli sínum. Eftir leik tvö sagðist hann tilbúinn að deyja á vellinum en það stefnir í að hann fái ekki tækifæri til þess.

Joe Mazzulla, þjálfari Boston Celtics, sagði meiðslin slæm og að liðið vildi ekki setja Porziņģis í stöðu sem gæti gert þau verri.

Þriðji leikur NBA-úrslitanna hefst klukkan 00.30 í kvöld, upphitun Stöðvar 2 Sport 2 hefst hálftíma fyrr eða á miðnætti. Boston leiðir 2-0 en vinna þarf fjóra leiki til að vera krýndur meistari NBA-deildarinnar árið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×