Íslenski boltinn

„Komu inn í leikinn með þennan fína „við erum betri en þið í fót­bolta“ hroka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarnan hefur tapað tveimur leikjum í röð í Bestu deild karla.
Stjarnan hefur tapað tveimur leikjum í röð í Bestu deild karla. vísir/anton

Lárus Orri Sigurðsson segir að Stjarnan hafi einfaldlega bognað undan baráttugleði Vestra í leik liðanna í Bestu deild karla um helgina.

Vestri vann leikinn á AVIS-vellinum í Laugardalnum, 4-2. Þetta var annað tap Stjörnunnar í röð en í þessum tveimur leikjum fékk liðið á sig samtals níu mörk.

Lárus Orri fór yfir muninn á baráttu Ísfirðinga og Stjörnumanna í Stúkunni á mánudaginn.

„Stjarnan kemur inn í þennan leik með þennan fína „við erum betri en þið í fótbolta“ hroka og Vestramenn tóku þá bara og lömdu þá bara á vellinum. Það var ekki flóknara en það,“ sagði Lárus Orri.

„Þeir tóku þá hreinlega í kennslustund um það að það fyrsta sem þú þarft að gera í fótbolta er að berjast og vinna fyrir rétti þínum til að spila fótbolta. Stjörnumenn mættu hreinlega ekki til leiks til að gera það. Þeir ætluðu, held ég að hljóti að vera, að valta yfir Vestramenn.“

Klippa: Stúkan - Linir Stjörnumenn

Lárus Orri segir að Stjörnumenn bregðist ekki vel við þegar lið spila af krafti gegn þeim.

„Ef það er tekið svolítið vel á Stjörnunni fara þeir svolítið í þennan gír. Eigum við ganga svo langt að segja að þeir séu linir. Liðin sem hafa mætt til leiks á móti Stjörnunni hefur gengið fínt gegn þeim. Þeir voru engan veginn tilbúnir í baráttuna,“ sagði Lárus Orri.

„Ég hefði getað tekið fleiri atvik. Ég er ekki að segja að þetta séu allt saman dýfur en þeir voru bara ekki klárir í slaginn sem Vestri bauð upp á.“

Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×