Skoðun

Traustir skulu horn­steinar

Jakob Bragi Hannesson skrifar

Forsetakosningar eru um næstkomandi helgi. Til er ágætur málsháttur á íslensku sem segir: „Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur fyrir“ Því miður geymir þessi málsháttur mikið sannleikskorn.

Íslendingar hafa kosið aftur og aftur yfir sig stjórnmálaflokka, menn og málefni sem ekki hafa virt þjóðarviljann og tekið gerræðislegar ákvarðanir gegn þjóðarhag. Fyrrverandi forsætisráðherra og formaður VG, Katrín Jakobsdóttir er í hópi þeirra stjórnmálamanna sem hefur endurtekið skellt skollaeyrum við vilja meirihluta þjóðarinnar s.s. í stjórnarskrármálinu. Þar eins og í öðrum málum hefur hún verið algjör undirlægja sjálfstæðisflokksins. Hún hverfur frá sökkvandi skipi með því að afhenda einum umdeildasta stjórnmálamanni landsins forsætisráðherraembættið

Íslendingar eru að vakna af löngum þyrnirósarsvefni. Þeir hafa fengið nóg af valdníðslu og yfirgangi ráðamanna en jafnframt verkleysi og spillingu. Fyrrverandi forsætisráðherra hefur misst traust sitt gagnvart kjósendum sínum í VG sem mælist undir 5% í skoðanakönnunum; og er í hættu á að þurrkast út í næstu alþingiskosningum.

Það er ákveðið dómgreindarleysi að fyrrverandi forsætisráðherra haldi að hún geti mætt í forsetaframboð sitt hvítþvegin. Það er einnig bjartsýni af Katrínu Jakobsdóttur ef hún heldur að Íslendingar muni launa henni dugleysið sem forsætisráðherra með því að kjósa hana til forseta. ,,Traustir skulu hornsteinar“ (Jónas Hallgrímsson, Alþing hið nýja).

Höfundur er framhaldsskólakennari, Cand.Ed og ráðgjafi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×