Forsvarsmenn Hagkaups tilkynntu það í vikunni að í næsta mánuði muni viðskiptavinir verslunarinnar geta pantað áfengi og sótt í Hagkaup Skeifunni.
„Mér líst ekkert á það. Auðvitað hefur verið í umræðunni að hún er ólögleg eins og hún er og verið að reyna að ná utan um það. Að öðru leyti hef ég ekki kynnt mér þeirra áform,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Nokkur fyrirtæki stunda nú þegar slíka netsölu. Willum segir góðar ástæður til að verja rétt ÁTVR til einkasölu.
„Nú verð ég auðvitað sem heilbrigðisráðherra að horfa á þetta út frá lýðheilsu og út frá stóra samhenginu. Við erum með einkasölu, ÁTVR, af ástæðu vegna þess að það þykir æskilegt form með þessa vandmeðförnu vöru í lýðheilsulegu tilliti og það ber að verja það,“ segir Willum.
Lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir að taka ekki nógu vel á netsölunni. Telurðu að það þurfi að fara í eitthvað átak?
„Ég tel bara að það þurfi að fara að lögum og lögreglan fari í málið á þeim forsendum.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra og formaður Vinstri grænna, lýsti sömuleiðis algerri andstöðu við áfengissölu Hagkaups í grein sem birtist á Vísi í gær. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki sammála kollegum sínum.
„Það hefur verið mín skoðun að setja almennilega og skýra umgjörð um þessa innlendu netverslun með áfengi. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga að þessi starfsemi er nú þegar heimil í gegnum EES samninginn. Það á þá bara við um erlendar netverslanir og mér finnst það ótæk staða sem leiðir til mikils ójafnræðis á markaði,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.
„Bæði formaður Vinstri grænna og heilbrigðisráðherra hafa lýst sinni skoðun og ég held að það sé ekkert launungamál að þeirra flokkar hafa ekki verið hrifnir af þeirri hugmynd sem netsala er. Aftur á móti höfum við Sjálfstæðismenn talað fyrir meira frjálsræði á þessum markaði.“
Guðrún hefur boðað breytingar á áfengislögum en segir ólíklegt að frumvarp þess efnis verði tekið fyrir á Alþingi á þessum þingvetri.
„Við þurfum að koma þessari starfsemi í betra horf.“