Viðskipti innlent

Orða­lag þurfi að vera nægi­lega skýrt fyrir sæmi­lega upp­lýstan neytanda

Jón Þór Stefánsson skrifar
Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka og Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka og Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

EFTA dómstóllinn segir að orðalag í skilmálum lána þurfi að vera nægilega gagnsætt jafnvel þó það þyki málfræðilega skýrt og skiljanlegt. Skilmálarnir þurfi að vera skiljanlegir þannig að almennur neytandi sem teljist sæmilega vel upplýstur og athugull geti skilið aðferðina sem beitt er við ákvörðun um útlánsvexti.

Þetta kemur fram í ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins í Vaxtamálinu svokallaða sem varðar málshöfðanir  á hendur íslenskum bönkum, sem í þessu tilfelli eru Íslandsbanki og Landsbankinn. 

Í tilkynningu frá dómstólnum segir að samningsskilmálar með umræddu orðalagi gætu valdið umtalsverðu ójafnvægi að því gefnu að dómstólar á Íslandi sannreyni efni skilmálanna.

Í tilkynningu frá Neytendasamtökunum er fullyrt að niðurstaða dómstólsins sé afdráttarlaus og lántökum í hag.

„Bönkunum er ekki heimilt að breyta vöxtum að vild og núverandi skilmálar bankanna uppfylla ekki skilyrði um skýrleika,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Líkt og áður segir er um ráðgefandi álit að ræða sem íslenskir dómstólar, Héraðsdómur Reykjavíkur, Héraðsdómur Reykjaness og Landsréttur óskuðu eftir.

EFTA dómstóllinn áréttar þó að það sé dómstóla á Íslandi að kveða á um hvort samningar með umræddum skilmálum haldi gildi sínu.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×