Fjallað er um ákæruna í Verdens Gang. Þar segir að lögreglan í Noregi telji að Ingunn hafi lifað hnífaárásina af þökk sé viðbrögðum samkennarans. Það hafi verið hending að engin af fjölmörgum hnífsstungum hafi hafnað í mikilvægum líffærum.
Dró upp hníf á fundi
Það var síðdegis þann 24. ágúst í fyrra sem nemandi við háskólann mætti á fund með Ingunni og samstarfskonu við lyfjafræðideild Oslóarháskóla. Ingunn lýsti því í samtali við fréttastofu í fyrr að nemandinn hefði að fundinum loknum skyndilega dregið upp hníf.
Fram kemur í ákærunni að nemandinn hafi skorið hálsinn á Ingunni, stungið hana í maga og brjóstkassa. Til viðbótar hafi fundist níu stungusár á höndum og fótum Ingunnar.
„Björnsdóttir komst lífs af vegna þess að samstarfsmaður og fleiri gripu inn í, hnífurinn fór ekki í mikilvæg líffæri og Björnsdóttir fékk læknisfræðilega meðferð með hraði,“ segir í ákærunni.
Hulda Olsen Karlsdóttir, saksóknari hjá norska ríkinu, segir rök fyrir því að ákæra manninn fyrir tilraun til manndráps.
Á góðum batavegi
„Ég hef náð góðum líkamlegum bata en varð fyrir meiðslum sem krefjast frekari æfinga til að ná fullum styrk. Endurhæfingin hefur gengið mjög vel með mikilli vinnu,“ segir Ingunn í viðtali við VG.
„Þetta hefur verið meiri rússíbani með andlegu líðanina en ég ætla að bíða með að tjá mig frekar þar til réttarhöldin fara fram.“
Fram kemur í frétt VG að nemandinn hafi fallið á prófi skömmu fyrir árásina. Hann hafi brugðist við með því að ráðast á kennarann.
Ingunn ræddi við fréttastofu um árásina í fyrra. Þar sagðist hún ekki bera kala til árásarmannsins og sagði einmitt að rétt viðbrögð samstarfsfólks og hennar sjálfrar hefðu bjargað lífi hennar.
„Nei ég finn enga reiði, ekki í garð árásarmannsins sko. Ég vona bara að honum verði hjálpað út úr þeim hugsunum, hverjar sem þær voru sem leiddu til þessa.“