Körfubolti

Meistararnir úr leik eftir stærstu endur­komu sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Edwards fagnar körfu í sigri Minnesota Timberwolves á Denver Nuggets í oddaleik liðanna í nótt.
Anthony Edwards fagnar körfu í sigri Minnesota Timberwolves á Denver Nuggets í oddaleik liðanna í nótt. AP/David Zalubowski

Minnesota Timberwolves komst í nótt í úrslit Vesturdeildarinnar í NBA þegar liðið vann útisigur á meisturum Denver Nuggets í hreinum úrslitaleik í einvígi liðanna.

Minnesota vann leikinn 98-90 og þar með einvígið 4-3. Næst á dagskrá er lið Dallas Mavericks í baráttunni um sæti í úrslitaeinvígi NBA á móti annað hvort Boston Celtics eða Indiana Pacers.

Timberwolves liðið var fimmtán stigum undir í hálfleik en með því að koma til baka úr þeirri stöðu þá náðu þeir stærstu endurkomu sögunnar í leik sjö í úrslitakeppni NBA.

Unga stórstjarnan hjá Minnesota, Anthony Edwards, byrjaði leikinn skelfilega en átti góðan seinni hálfleik. Hann skoraði aðeins fjögur stig í fyrri hálfleiknum en endaði leikinn með 16 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.

Auk þess að spila betur sóknarlega þá lokaði Edwards á Jamal Murray sem skoraði 24 stig í fyrri hálfleik en aðeins níu stig í þeim síðari.

„Það eru til fleiri leiðir til að vinna körfuboltaleik þegar þú ert ekki bara sóknarleikmaður. Ég er ekki bara gæi sem getur skorað. Ég er líka gæi sem getur lokað á besta bakvörð hins liðsins. Mér fannst ég gera það á móti Jamal í fjórða leikhlutanum, í þriðja og fjórða leikhlutanum, og það var það sem sneri leiknum,“ sagði Anthony Edwards eftir leik.

Staðan varð reyndar enn verri í upphafi þriðja leikhlutans þegar Denver komst tuttugu stigum yfir, 58-38, þegar rúm mínúta var liðin af seinni hálfleiknum. 28-9 sprettur kom Minnesota einu stigi fyrir lokaleikhlutann. Liðið var síðan sterkara á lokakafla leiksins.

Karl-Anthony Towns og Jaden McDaniels voru stigahæstir í liðinu með 23 stig hvor. Towns tók einnig 12 fráköst.

Jamal Murray skoraði 35 stig fyrir Denver og þá var Nikola Jokic með 34 stig, 19 fráköst og 7 stoðsendingar. Enginn annar leikmaður liðsins skoraði meira en sjö stig. Það er því ljóst að liðið nær ekki að verja NBA titilinn í ár.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×