Þetta var samþykkt á fundi ráðsins í síðustu viku, en það var Stefán Pálsson, fulltrúi Vinstri grænna í ráðinu, sem lagði fram upphaflegu tillöguna.
![](https://www.visir.is/i/6D0FC1CCB53FA12A0382090AB0E13B09619637305EE63E980CE4110E30F054D5_713x0.jpg)
Má muna fífil sinn fegurri
Í breytingartillögu fulltrúa meirihlutans segir að Borgarsögusafni verði falið að leiða vinnuna sem feli í sér að vinna kostnaðaráætlun og leggja fyrir ráðið tillögu að tímasettri framkvæmdaáætlun.
Ennfremur segir í bókun fulltrúa meirihlutans að vatnspósturinn í Aðalstræti sé skemmtilegt tákn um horfna lifnaðarhætti í borginni sem sæki aðdráttarafl sitt ekki síst í nálægð við náttúruöflin, hreint vatn, náttúruböð og upphitaðar almenningssundlaugar.
„Vatnspósturinn má muna sinn fífil fegurri og er hér samþykkt að hefja undirbúning að endurgerð hans með gerð kostnaðaráætlunar og í kjölfarið tillögu að framkvæmdaáætlun,“ segir í bókuninni.
![](https://www.visir.is/i/9C4B98F2F7F5CF3BD96ACD6D1B71087CEF01E60FAC1164B5D04243C762B86E49_713x0.jpg)
Setti skemmtilegan svip á götumyndina fyrstu árin
Í upprunalegri tillögu Stefáns, sem er sagnfræðingur að mennt, segir að í ár séu 180 ár liðin frá því að þá eina starfandi prentsmiðja landsins hafi verið flutt úr Viðey og til Reykjavíkur í tengslum við endurreisn Alþingis.
„Landsprentsmiðjan, sem svo nefndist, var starfrækt í Aðalstræti næstu áratugina. Í tengslum við prentsmiðjuna þurfti að stækka aðalvatnsból Kvosarinnar og var setur á það vatnspóstur, sem almennt var kallaður „Prentsmiðjupósturinn“. Höfðu Reykvíkingar lengi fyrir satt að brunnur landnámsmannsins Ingólfs hefði verið á þessum sama stað, þótt um það verði ekkert vitað með vissu.
![](https://www.visir.is/i/611D513EEB95D552D175F928AE07B99FE6871305776DDD75F491479C9929DBED_713x0.jpg)
Fyrir nokkrum áratugum var gamli Prentsmiðjubrunnurinn grafinn út að nýju, á hann settur gegnsær plasthleri, lýsing útbúin í brunninum og komið upp vatnspósti með handdælu í nítjándu aldar stíl. Setti vatnspósturinn skemmtilegan svip á götumyndina fyrstu árin.
Óhætt er að segja að brunnurinn og vatnspósturinn hafi mjög látið á sjá í seinni tíð. Lýsingin hefur að mestu eða öllu leyti geispað golunni, plasthlerinn er svo máður að erfitt er að horfa í gegnum hann, auk þess sem móða situr sífellt á innanverðum hleranum. Vatnspósturinn sjálfur er gauðryðgaður og skellóttur. Þá munu óþarflega vaskir borgarstarfsmenn hafa sagað handfangið af póstinum fyrir meira en aldarfjórðungi að kröfu verslunareiganda í nágrenninu. Löngu er orðið tímabært að þessar skemmtilegu söguminjar fái andlitslyftingu,“ sagði í greinargerð Stefáns með tillögunni um að endurgera vatnspóstinn.
![](https://www.visir.is/i/77CA2081657C24449AD52B227FBCFDC6D289F58FD27BA1439B5CA4CFB906B7D0_713x0.jpg)