Í tilkynningu frá borginni segir að til greina komi aðeins einstaklingar sem hafi verið til fyrirmyndar eða sýnt af sér háttsemi eða atferli sem kemur Reykjavík og íbúum borgarinnar til góða á einhvern hátt.
„Þetta gæti verið einhver sem hefur haft jákvæð áhrif á borgarlífið, sýnt nærumhverfinu alúð eða gert mikið gagn í borginni á undanförnum árum með einhverjum hætti,“ segir í tilkynningunni og að hann, hún eða hán sem hlýtur viðurkenningu sem Reykvíkingur ársins muni opna Elliðaárnar með því að renna fyrir laxi í ánni ásamt borgarstjóra, í boði Stangveiðifélags Reykjavíkur sem hefur árnar á leigu.
Frestur til að senda inn tilnefningar rennur út mánudaginn 10. júní 2024. Þriggja manna dómnefnd velur Reykvíking ársins úr innsendum tillögum.
Virkjaði nemendur á þeirra eigin áhugasviði
Reykvíkingur ársins í fyrra var Mikael Marinó Rivera grunnskólakennari í Rimaskóla í Grafarvogi fyrir að virkja nemendur sem finna ekki sitt áhugasvið í hefðbundnum námsgreinum í skólanum. Hann bauð meðal annars upp á valáfanga í fluguveiði, Lord of the Rings, þar sem kafað er dýpra í hugarheim Tolkiens, hlaðvarp þar sem nemendur læra að gera hlaðvörp, allt frá handritagerð til birtingar á efni og Ökuskóla Mikaels, sem er undirbúningur fyrir hefðbundið ökunám.
Ábendingar um einstaklinga eru vel þegnar og ber að senda þær inn ásamt rökstuðningi um það hvers vegna viðkomandi einstaklingur á heiðurinn skilinn á netfangið hugmynd@reykjavik.is.