Skoðun

Minnis­leysi eða þekkingar­skortur?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Formaður Alþýðuhreyfingarinnar, Þorvaldur Þorvaldsson, sagði í grein á Vísir.is í gær að það hefði verið sláandi að heyra Katrínu Jakobsdóttur segja í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins á dögunum að tæki Alþingi ákvörðun um það að ganga í Evrópusambandið án þess að leggja málið í þjóðaratkvæði teldi hún það augljóslegt dæmi um mál sem bera ætti undir þjóðina. Nokkuð sem þó hefði ekki átt að koma honum á óvart.

Vísaði Þorvaldur til þess að Katrín hefði greitt atkvæði með umsókn þáverandi ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG um inngöngu í Evrópusambandið árið 2009 og gegn því að sú ákvörðun yrði lögð í þjóðaratkvæði. Eftir sem áður stóð til að kosið yrði um mögulegan samning hefði komið til hans. „Hefur frambjóðandinn skipt um skoðun?“ spurði hann og taldi berlega að um eitthvað væri að ræða sem gerzt hefði nýverið.

Formaðurinn hefur þannig ljóslega ekki fylgst nógu vel með. Til að mynda var þannig fjallað um það í fjölmiðlum í febrúar 2019 að Katrín hefði lýst því yfir í fyrirspurnatíma á Alþingi að mistök hefðu verið gerð með því að leggja ekki umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæði og áréttaði þar fyrri ummæli í þeim efnum. Þá lýsti hún því ítrekað yfir sem formaður VG að flokkurinn myndi ekki styðja slíka umsókn.

Bezt treystandi til þess að standa vaktina

Komið hefur að sama skapi ítrekað fram í máli Katrínar á liðnum árum að hún sé andvíg því að gengið verði í Evrópusambandið og hefur ekki verið í neinum feluleik með afstöðu sína í þeim efnum. Ólíkt til dæmis Höllu Hrund Logadóttur á fundi á Egilsstöðum í vikunni þar sem hún var ítrekað innt eftir afstöðu hennar til málsins sem hún kom sér jafnoft undan því að svara. Eins og hún hefur raunar gert í fleiri málum.

Hvað varðar þriðja frambjóðandann sem mælist með hvað mest fylgi í könnunum, Baldur Þórhallsson, hefur hann eins og velþekkt er lengi verið einn ötulasti hvatamaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Fyrir vikið þarf ekki að velkjast í miklum vafa um það hver afstaða hans er þegar þessi mál eru annars vegar jafnvel þó hann hafi farið að tala á nokkuð óljósari nótum í þeim efnum eftir að hann lýsti yfir framboði.

Ég er þannig ekki í nokkrum vafa um það að Katrínu sé bezt treystandi af þeim þremur til þess að standa vaktina gagnvart stjórnvöldum og sjá til þess að þjóðin hefði síðasta orðið kæmi til þess að tekin yrði sú ákvörðun af hálfu þeirra að fara með Ísland inn í Evrópusambandið án þess að bera það undir hana. Þar vegur ekki sízt þungt hennar mikla reynsla og þekking á því hvernig kaupin gerast á eyrinni í pólitíkinni.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×