Handbolti

Viggó fór á kostum í góðum sigri Leipzig

Smári Jökull Jónsson skrifar
Viggó Kristjánsson var markahæsti maður vallarins í dag.
Viggó Kristjánsson var markahæsti maður vallarins í dag. Getty/Jan Woitas

Viggó Kristjánsson var markahæsti maður vallarins þegar Íslendingaliðið Leipzig vann sigur á Göppingen í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag.

Lið Leipzig hefur gert fína hluti á tímabilinu undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar. Rúnar tók við liðinu á miðju tímabili í fyrra þegar liðið var í fallbaráttu. Hann bjargaði liðinu þá frá falli og á þessu tímabili hefur liðið verið í efri hluta þýsku deildarinnar.

Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson, sonur Rúnars þjálfara, voru báðir í leikmannahópi Leipzig í dag þegar liðið var í heimsókn hjá Göppingen.

Viggó fór algjörlega á kostum í leiknum og lauk leik markahæstur allra á vellinum. Hann skoraði tíu mörk úr þrettán skotum í 30-27 sigri Leipzig. 

Leipzig virtist ætla að valta yfir heimamenn í Göppingen og leiddu 18-10 í hálfleik. Í síðari hálfleik tóku heimamenn hins vegar við sér. Þeim tókst að jafna metin í 27-27 en Leipzig skoraði þrjú síðustu mörkin og Viggó það síðasta með skoti í tómt markið.

Leipzig er nú í 8. sæti þýsku deildarinnar með 29 stig en liðið er fimm stigum á eftir Hannover-Burgdorf sem er í sætinu fyrir ofan. Andri Már Rúnarsson skoraði tvö mörk fyrir Leipzig í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×