Niðurstöður úr þjóðarpúlsinum voru birtar á vef RÚV fyrr í kvöld. Þar kemur fram að fylgi við Framsóknarflokkinn hafi aukist milli mánaða. Í síðasta mánuði var fylgi Framsóknar 7,3 prósent en er nú 8,8 prósent. Framsókn er því komin fram úr Pírötum, sem mældust ögn hærri í þjóðarpúlsi síðasta mánaðar.
Þá eykur Flokkur fólksins fylgi sitt milli mánaða og mælist með 7,2 prósent en var með 6,2 prósent í síðasta mánuði. Enn og aftur mælist fylgi Samfylkingarinnar mest, 29,7 prósent en í síðasta mánuði var það 30,9 prósent.
Fylgi annarra flokka breytist lítið milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn er í 18 prósentum og Miðflokkurinn í 12,8 prósentum. 7,5 prósent sögðust myndu kjósa Viðreisn en fylgi Sósíalistaflokksins mældist 3,4 prósent.
Könnunin var framkvæmd dagana 3.–28. apríl 2024. Heildarúrtaksstærð var 9.925 og þátttökuhlutfall 48,1 prósent. Þátttakendur voru valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup.