Skoðun

Góð manneskja í djobbið

Halldór Guðmundsson skrifar

Þá er orðið ljóst hverjir eru í framboði til forseta Íslands og spennandi kosningar fram undan. Ég deili ekki þeirri skoðun að forsetaembættið sé ekki til neins, en um það gildir eins og mörg hlutverk í okkar fámennissamfélagi, hvernig það gagnast fer mest eftir því hver tekur það að sér. Embættið er táknrænt, það getur reynt á það á erfiðum tímum og þá skiptir miklu að sú sem tekst það á hendur sé skynsöm, skýr og velviljuð manneskja og standi föstum fótum í þeirri hefð sem hefur skipt okkur svo miklu í basli aldanna: tungu, menningu og bókmenntum. Og það gerir Katrín Jakobsdóttir.

Síðustu vikur hefur mikil gagnrýni beinst að því stjórnarsamstarfi sem hún hefur leitt og ég get sumpart tekið undir hana, enda ekki verið samflokksmaður Katrínar. En það má ekki verða til þess að við gleymum því sem hún hefur gert um dagana, ekki síst í þágu menningar og bókmennta. Mig langar að nefna tvennt, af því þar þekki ég vel til sjálfur: Sem menntamálaráðherra studdi hún eindregið hina viðamiklu íslensku bókakynningu í Frankfurt 2011; þetta var verkefni sem nafna hennar Þorgerður Katrín hafði sett af stað, en miklu skipti að halda lífi í því á erfiðum árum eftir hrun og þá var svo sannarlega gott að eiga Katrínu að. Katrín á ennfremur sinn stóra þátt í að lokið var við byggingu Hörpu, en nú vildu allir það hús byggt hafa. Í báðum tilvikum sýndi Katrín framsýni og úthald og þeir eiginleikar munu koma sér vel í forsetaembættinu. Auk þess er hún skemmtileg og hefur húmor fyrir sjálfri sér, en sjálfshátíðleikinn er vísasta leiðin til að koðna niður í svona starfi.

Er það gott djobb, spurði Halldór Laxness þegar menn vildu gera hann að forseta og mitt svar er já, ég held það verði gott djobb ef Katrín tekur það að sér.

Höfundur er rithöfundur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×