KR lenti óvænt undir í leiknum vegna marks Bjarka Sigurjónssonar beint úr aukaspyrnu eftir aðeins þrjár mínútur. Fyrir hlé skoraði Benóný Breki Andrésson hins vegar tvö og Luke Rae eitt, staðan 3-1 í hálfleik.
Hér er markið sem kom fjórðu deildarliði K.Á. óvænt yfir gegn KR. Sérdeilis prýðileg afgreiðsla, Bjarki Sigurjónsson⚽️@mjolkurbikarinn pic.twitter.com/xwhMrtMASl
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) April 24, 2024
Rae skoraði öðru sinni snemma í síðari hálfleik en fór í kjölfarið meiddur af velli aðeins tveimur mínútum síðar, enn einn KR-ingurinn sem meiðist snemma móts. Hann fylgir í kjölfar Arons Sigurðarsonar, Hrafns Tómassonar, Theódórs Elmars Bjarnasonar og Jóhannesar Kristins Bjarnasonar sem allir hafa farið meiddir af velli í upphafi móts.
Skömmu eftir að Rae fór út af fór félagi hans, markvörðurinn Sam Blair, sömu leið. Hann meiddist þó ekki heldur fékk hann beint rautt spjald og vítaspyrna dæmd.
Friðleifur Friðleifsson skoraði af punktinum og minnkaði muninn í 4-2 og KÁ manni fleiri í 35 mínútur.
Axel Óskar Andrésson skoraði hins vegar á 57. mínútu til að koma KR í 5-2. Heimamenn, sem leika í 4. deild, voru þá sprungnir á limminu í lok leiks.
Alex Þór Hauksson skoraði á 85. mínútu, Óðinn Bjarkason skoraði tvö á 87. og 89. mínútu áður en Eyþór Aron Wöhler skoraði sitt fyrsta mark og það níunda hjá KR. Lokatölur 9-2 fyrir Vesturbæinga eftir vægast sagt skrautlegan leik.
HK-ingar áfram
George Nunn var hetja HK sem fór áfram í bikarnum í kvöld eftir sigur á Þrótti í Laugardal. Hann kom HK yfir snemma leiks en Viktor Andri Hafþórsson jafnaði snemma í síðari hálfleik.
Nunn skoraði svo sigurmark HK-inga á 87. mínútu til að skjóta Kópavogsliðinu áfram.