Boðað var til mótmælanna á Facebook í gær og ríflega hundrað manns lögðu leið sína á Austurvöll. Fréttamaður tók nokkra Grindvíkinga tali.
Hverjar eru kröfurnar, af hverju eruð þið hérna?
„Bara að fá borgað núna strax út úr Þórkötlu. Þetta er búið að taka alveg rosalega langan tíma og mörg okkar eru með skuldbindingar sem við þurfum að standa við. Ég til dæmis þarf að borga tvö þúsund krónur á hverjum einasta degi í vexti af yfirdráttarheimild sem ég tók til að geta keypt mér húsnæði. Ég ætlaðist til þess að vera með þessa yfirdráttarheimild í einhverja daga, en núna er ég búin að vera með hana í tvo mánuði,“ segir Andrea Ævarsdóttir.

Býr inni á pabba
Birna Rún Arnarsdóttir hefur búið ásamt stórri fjölskyldu sinni inni á pabba hennar Arnari síðan rýma þurfti Grindavík.
„Við erum búin að vera sjúklega heppin í þessu ferli en engu að síður er kominn tími á að við getum keypt okkur nýtt.“

Ekki rétti tíminn til þess að finna upp hjólið
Ljóst er að uppkaup á mörg hundruð eignum Grindvíkinga eru umfangsmikið verkefni. Andrea segir að leysa hefði verkefnið með einfaldari hætti. Nú hafi ekki verið tíminn til þess að búa til nýja rafræna lausn. Grindvíkingar hefðu glaðir gengið frá sínum málum upp á gamla mátann.
„Við getum alveg gert þetta á pappírum. Þetta er ekki rétti tíminn til þess að finna upp hjólið.