BBC Russian, fjölmiðlahópurinn Mediazona og sjálfboðaliðar hafa staðið að talningu dauðsfalla frá því í febrúar 2022. Talningin fer meðal annars fram með því að kemba opinber gögn, fjölmiðlaumfjöllun og samfélagsmiðla, auk þess að fylgjast með nýjum gröfum í kirkjugörðum.
Samkvæmt talningunni létust 27.300 hermenn á tímabilinu febrúar 2023 til febrúar 2024. BBC segir þetta sýna vel hina gríðarlegu mannlegu fórn sem sókn Rússa í Úkraínu hefur haft í för með sér.
Miðillinn segir aðferðum Rússa hafa verið líkt við hakkavél, þar sem hermenn séu sendir í stöðugum bylgjum inn á vígvöllinn til að þreyta varnir Úkraínumanna og afhjúpa staðsetningu þeirra fyrir stórskotalið innrásarhersins.
Rússnesk stjórnvöld neituðu að tjá sig um fjöldann.
BBC segir dauðsföllin líklega mun fleiri en talan nær til að mynda ekki til mannfalls í bardagasveitum á hernumdum svæðum í Donetsk og Luhansk.
Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti greindi frá því í febrúar síðastliðnum að 31.000 úkraínskir hermenn hefðu fallið í átökunum en þar er einnig talið að raunverulegur fjöldi sé töluvert meiri.