Körfubolti

Óli var búinn að vara við: „Ef þeir syngja um mig þá kveikir það í mér“

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Ólafsson naut sín í botn í Síkinu í gærkvöld og það virðist afar ólíklegt að hann komi þangað aftur í vor.
Ólafur Ólafsson naut sín í botn í Síkinu í gærkvöld og það virðist afar ólíklegt að hann komi þangað aftur í vor. Stöð 2 Sport

Ólafur Ólafsson var frábær á Sauðárkróki í gær þegar Grindavík fór illa með Íslandsmeistara Tindastóls og komst í 2-0 í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum Subway-deildarinnar í körfubolta.

Óli var valinn PlayAir leiksins og hann segist einfaldlega hafa vitað að hann yrði að gera enn meira en áður, vegna umdeilds leikbanns DeAndre Kane.

„Ég vissi bara að ég þyrfti að koma tilbúinn, af því að við vorum manni færri. Ég er búinn að reyna að segja Tindastóls-stuðningsmönnunum margoft að ef þeir syngja eitthvað um mig þá kveikir það bara í mér. Þeir voru að syngja eitthvað fyrir leik og það þurfti ekki mikið til að kveikja í mér. Þannig að ég var alltaf að fara að setja niður fyrsta skotið,“ sagði Óli hress í Körfuboltakvöldi eftir leik en viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: PlayAir leiksins var Ólafur Ólafs

Stefán Árni Pálsson benti á að Óli hefði í raun þurft að fylla í skarð karaktersins sem Kane er – fara óhikað í menn og sjá til þess að enginn í hinu liðinu fengi að vaða eitthvað uppi:

„Ég var pínulítið í þessu áður fyrr en er með tvo einstaklinga í þessu núna. Ég er búinn að taka það að mér frekar að halda þeim í skefjum. En þegar ég þarf þá geri ég það,“ sagði Óli sem var líkt og margir Grindvíkingar ekki hrifinn af dómnum sem Kane fékk:

„Þegar ég fékk fréttirnar um að hann [Kane] væri að fara í bann þá sendi ég svona myndband af því að það væri verið að hella bensíni á eldinn. Það þarf ekki mikið til að kveikja í okkur. Svo er hann að fá aukadaga í hvíld núna svo að hann mætir ferskur í næsta leik,“ sagði Óli en skemmtilegt spjall hans við sérfræðinga Körfuboltakvölds má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×