Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Eins og fram hefur komið hafa allnokkrir smáskjálftar, minni en einn að stærð mælst við Grindavík síðustu klukkustundirnar.
Virknin er að megninu til staðsett innan sigdalsins sem myndaðist þann 10. nóvember síðastliðinn. Segir Veðurstofan að hún sé líklega vegna áhrifa frá landrisinu í Svartsengi sem valdi spennubreytingum á svæðinu.
Þá segir í tilkynningu Veðurstofunnar að aðeins hafi dregið úr skjálftavirkninni nú undir kvöld. Ekki sé talið líklegt að stórir skjálftar fylgi þessari virkni sem mælist nú.
Ef kvika færi að leita annað en þá leið sem hún hefur farið yfir í Sundhnúksgígaröðinni, til dæmis í vestur í átt að Eldvörpum eða suður af Þorbirni, væri undanfari mögulegs eldgoss á því svæði mjög ákafar skjálftahrinur og aflögun sem kæmi skýrt fram á mælitækjum og gervitunglamyndum, að því er segir í tilkynningu Veðurstofunnar. Engin merki séu um slíkt á þessum tímapunkti.