Allt lagt í sölurnar á Anfield en niður­staðan grát­legt tap

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Curtis Jones laut höfði eftir að hafa klúðrað dauðafæri.
Curtis Jones laut höfði eftir að hafa klúðrað dauðafæri. Michael Steele/Getty Images

Liverpool tapaði 0-1 fyrir Crystal Palace og missti af gullnu tækifæri til að koma sér í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Eberechi Eze kom gestunum yfir á 14. mínútu. Afgreiðslan var auðveld eftir góða spilamennsku Crystal Palace upp vinstri vænginn. Tyreek Mitchell gaf stoðsendinguna. 

Þremur mínútum síðar þurfti Andy Robertson að bjarga boltanum af eigin línu eftir að skot Jean-Phillipe Mateta rataði framhjá markverðinum.

Robertson renndi sér og bjargaði á línu, Michael Steele/Getty Images

Liverpool slapp með skrekkinn og lagði þá af stað í leit að jöfnunarmarki. Wataru Endo átti skot í slá á 27. mínútu og Dean Henderson varði virkilega vel þegar Luis Diaz skaut af stuttu færi.

Í seinni hálfleik hélt Liverpool áfram að herja á mark gestanna, það kom svo mjög líflegur og skemmtilegur leikkafli eftir rúmar sjötíu mínútur.

Varamaðurinn Diogo Jota fékk dauðafæri til að jafna leikinn á 72. mínútu. Markvörðurinn var hvergi sjáanlegur en Nathaniel Clyne, fyrrum leikmaður Liverpool, renndi sér fyrir skot Jota og hélt því frá marki.

Rétt rúmri mínútu síðar komust gestirnir næstum því tveimur mörkum yfir en Alisson, markvörður Liverpool, varði skot af stuttu færi. Liverpool brunaði upp hinum megin og kom boltanum inn fyrir á Curtis Jones sem var sloppinn einn í gegn en hann skaut framhjá markinu.

Heimamenn hentu öllum mönnum fram síðustu mínútur leiksins og gestirnir lögðust langt til baka. Alisson fór meira að segja fram í síðustu aukaspyrnu leiksins.

Þrátt fyrir að leggja allt í sölurnar kom Liverpool boltanum ekki í netið og sat eftir með sárt ennið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira