Hin 74 ára Jenner skrifar í færslunni sem birtist á X/Twitter fyrr í dag „Farið hefur fé betra“ auk myllumerkisins #OJSimpson.
Good Riddance #OJSimpson
— Caitlyn Jenner (@Caitlyn_Jenner) April 11, 2024
Jenner hefur lengi haldið þeirri skoðun á lofti að OJ Simpson hafi verið sekur í morðmálinu 1994. Jenner og Simpson voru aldrei nátengd en tengdust þó ákveðnum böndum gegnum maka sína.
Robert Kardashian, fyrri eiginmaður Kris Jenner, var besti vinur OJ Simpson og síðar lögmaður hans í „Réttarhöldum aldarinnar“ árið 1994 þegar OJ var sakaður um að hafa drepið eiginkonu sína, Nicole Brown Simpson og vin hennar, Ronald Goldman.
Kris skildi við Robert Kardashian árið 1991 og giftist Bruce Jenner mánuði síðar (en Jenner kom út sem trans kona árið 2015 og tók þá upp nafnið Caitlyn).
Kris og Caitlyn hafa ætíð talið OJ sekan
Kris tók ekki afstöðu með OJ í málinu heldur krafðist réttlætis vegna morðsins á Nicole Brown, sem hafði verið náin vinkona hennar. Dómsmálið tók því verulega á fjölskylduna.
Caitlyn Jenner hafði sömu afstöðu og Kris í máli OJ og hefur ítrekað það í gegnum árin að Simpson hafi verið sekur en sloppið.
Í þætti hjá Dr. Phil árið 2009 rifjaði Caitlyn upp hvernig það var þegar fréttirnar af sýknun OJ bárust.
„Krakkarnir komu inn og sögðu „Ég sagði þér að hann hefði ekki gert það.“ Við settumst niður með þeim og ég sagði „Bara af því hann var sýknaður þýðir það ekki að hann hafi ekki gert það og mig langar ekki að heyra minnst á nafn hans framar“ og ég átti mörg samtöl við Robert til að tryggja að þetta myndi ekki rústa fjölskyldunni,“ sagði Jenner við Dr. Phil.