Körfubolti

„Við erum undir­hundarnir í þessari seríu finnst mér“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Svavar Birgisson þjálfari Tindastóls.
Svavar Birgisson þjálfari Tindastóls. Vísir/Vilhelm

Svavar Atli Birgisson lofaði betri frammistöðu Tindastóls þegar liðið mætir Grindavík á nýjan leik í 8-liða úrslitum Subway-deildarinnar. Tindastóll tapaði 111-88 þegar liðin mættust í Smáranum í kvöld. 

„Við brotnum full auðveldlega, það má segja það. Þú vinnur ekki neitt í úrslitakeppninni með því að fá á þig 111 stig, alveg skítsama hvað þú gerir í sókninni. Ekki nema þú skorir 112 en það er langsóttur möguleiki samt,“ sagði Svavar í viðtali við Vísi eftir leik.

„Við vorum bara allir „off“, allir sem einn. Það er eins og við höfum ekki ráðið við spennustigið, við verkefnið. Þá verður þetta eins og bolti sem fer að rúlla í öfuga átt.“

Svavar benti þó á að þrátt fyrir stórt tap í kvöld þá væri Grindavík bara með einn sigur í einvíginu.

„Það er bara 1-0 í seríunni og hvort sem þú tapar með einu eða tuttugu þá er það bara næsti leikur. Þá verður mögulega allt annað uppi á teningunum.“

Grindavík lenti í 2. sæti í Subway-deildinni og Tindastóll í 7. sætinu. Þrátt fyrir það snerist umræðan fyrir einvígið að einhverju leyti um það að Grindvíkingar hefðu verið óheppnir að lenda á móti Íslandsmeisturum Tindastóls í 8-liða úrslitum. Truflaði þetta lið Tindastóls?

„Í raun ekki. Við erum undirhundarnir í þessari seríu finnst mér. Þeir eru búnir að tala sig upp í að ætla að verða Íslandsmeistarar og allt það. Við erum búnir að vera í bölvuðu basli í allan vetur og þetta er bara framhald af því. Þetta er ekki staðurinn sem við ætluðum að vera á.“

Svavar var með á hreinu hvað lið Tindstóls ætlaði sér að færa stuðningsmönnum liðsins á mánudag þegar liðin mætast á nýjan leik.

„Miklu betri frammistöðu en þetta. Ég lofa því bara hér og nú að hún verður á öðru plani en þetta sem við sýndu í dag. Því það var ekki nógu gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×