Körfubolti

Dauð­vona ef hann fær ekki nýtt nýra

Sindri Sverrisson skrifar
Jarrett Jack og Nate Robinson á góðri stund í úrslitakeppni BIG3-deildarinnar haustið 2021.
Jarrett Jack og Nate Robinson á góðri stund í úrslitakeppni BIG3-deildarinnar haustið 2021. Getty/Michael Reaves

Troðslukóngurinn og fyrrverandi NBA-stjarnan Nate Robinson segist ekki eiga langt eftir ólifað finnist ekki nýtt nýra fyrir hann, eftir fjögurra ára leit vegna nýrnabilunar.

Robinson, sem er aðeins 39 ára, lék í ellefu ár í NBA-deildinni í körfubolta fyrir lið á borð við New York Knicks, Boston Celtics og Chicago Bulls.

Daily Mail hefur eftir Robinson að hann hafi síðustu ár verið í stöðugri meðferð vegna nýrnabilunarinnar og útlitið sé ekki gott.

„Ég veit að ég á ekki langt eftir ef ég get ekki fengið nýra,“ sagði Robinson við Daily Mail. „Ég veit að ég á ekki mikið eftir svo ég vil bara njóta eins vel og ég get það sem eftir er,“ sagði Robinson.

Hann er enn á lífi þökk sé blóðskilunarmeðferð.

„Líkamar sumra hafna blóðskilun. Guði sé lof að minn gerir það ekki og ég get lifað. Ef að ég færi ekki í skilun þá myndi ég örugglega ekki lifa lengur en í eina eða tvær vikur. Þetta er því alvarlegt. Ég má ekki missa úr eitt skipti. Ég fer í fjóra klukkutíma, þrisvar í viku, og blóðið mitt er hreinsað og eiturefni tekin út. Þetta hjálpar mér mikið því þetta er ástæðan fyrir því að ég lifi,“ sagði Robinson.

Hann segir að einn fylgikvilli meðferðarinnar séu tíð og sársaukafull uppköst, sem oft valdi því að hún sé á sjúkrahúsi í 1-2 daga. Robinson reynir þó að halda í jákvæðinna.

„Blóðskilunarvélin heldur í mér lífinu svo ég nýt þess tíma þegar mér finnst ég vera hraustur. Ég reyni að fara út með börnunum mínum, sjá fjölskylduna og spila körfubolta. Gera það sem ég elska,“ sagði Robinson sem á sínum ferli vann meðal annars troðslukeppni NBA-deildarinnar þrisvar sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×