Innlent

Þrír teknir höndum á Bessa­stöðum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þrír voru teknir höndum og einn borinn inn í lögreglubíl á mótmælum sem fram fóru á Bessastöðum í kvöld.
Þrír voru teknir höndum og einn borinn inn í lögreglubíl á mótmælum sem fram fóru á Bessastöðum í kvöld. Aðsend

Blásið var til mótmæla vegna ríkisráðsfundar þar sem ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum. Roði, félag ungra sósíalista og aðstandendur Samstöðutjaldsins stóðu að mótmælunum. Samskipti mótmælenda og lögreglu voru ekki með öllu friðsæl og þrír voru handteknir.

Mótmælin fóru fram við afleggjarann að Bessastöðum þar sem lögregla hleypti mótmælendum ekki nær. Búið var að girða afleggjarann að Bessastöðum og minnst þrír lögreglubílar voru á vettvangi.

Að sögn sjónarvotta var mótmælendum bannað að vera á götunni þegar bílar ráðherra komu á ríkisráðsfund og látnir færa sig á gangstéttina. Hópur mótmælenda settist þá á götuna og ætlaði að hindra för bíla af afleggjaranum frá Bessastöðum.

Aðsend

Þrír mótmælendur voru handteknir og að minnsta kosti einn þeirra var borinn inn í lögreglubíl, líkt og sjá má í myndbandi sem fréttastofa hefur undir höndum. 

Aðsend

Mótmælendurnir sem teknir voru höndum voru samkvæmt upplýsingum fréttastofu á vegum No Borders samtakanna og kröfðust kosninga, endanlegrar afsagnar Bjarna Benediktssonar og betri framkomu við flóttafólk.

Aðsend

Á meðan mótmælunum stóð mátti heyra kyrjað „kosningar strax,“ og „vanhæf ríkisstjórn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×