Handbolti

Ruddi niður eftir­lits­manni sem endaði á sjúkra­húsi

Sindri Sverrisson skrifar
Eftirlitsmaður leiksins féll í gólfið eftir að einn af leikmönnum Nexe ruddi honum niður.
Eftirlitsmaður leiksins féll í gólfið eftir að einn af leikmönnum Nexe ruddi honum niður. Skjáskot/Youtube

Hætta þurfti toppslag Nexe og Zagreb í króatísku úrvalsdeildinni í handbolta eftir að einn af leikmönnum Nexe gekk harkalega utan í eftirlitsmann leiksins sem féll í gólfið og endaði á sjúkrahúsi.

Staðan var 16-9 fyrir Zagreb þegar leiknum var hætt en leikmönnum Nexe var heitt í hamsi vegna ákvarðana dómara leiksins.

Fahrudin Melic hafði skorað mark fyrir Nexe úr hraðaupphlaupi en markið fékk ekki að standa þar sem að búið var að brjóta á honum, og dæma víti og tvær mínútur á leikmann Zagreb.

Vítakastið var hins vegar aldrei tekið því upp úr sauð og það sem olli því að leiknum var hætt var að Slóveninn Marko Bezjak lét reiði sína bitna á Antu Josic, eftirlitsmanni leiksins.

Eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan gekk Bezjak harkalega utan í Josic sem þurfti á aðhlynningu að halda, og fór svo á sjúkrahús samkvæmt króatískum miðlum.

Dómarar leiksins tóku þá ákvörðun að ekki yrði haldið áfram að spila og óvíst er hvað gerist í framhaldinu, en miðillinn Telesport segir nær öruggt að Zagreb verði einfaldlega dæmdur sigur, þar sem atvikið verði túlkað sem árás á einn af starfsmönnum leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×