Handbolti

Ætlar að hjálpa Ís­landi inn á EM en fara svo í frí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Jóna Þorsteinsdóttir þarf að eiga góða leiki í markinu svo að íslensku stelpurnar nái að tryggja sér sæti á EM í desember.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir þarf að eiga góða leiki í markinu svo að íslensku stelpurnar nái að tryggja sér sæti á EM í desember. Vísir/Hulda Margrét

Elín Jóna Þorsteinsdóttir og félagar hennar í íslenska kvennalandsliðinu í handbolta voru með á síðasta heimsmeistaramóti og þær geta í næstu viku tryggt sér sæti á öðru stórmótinu í röð.

Stelpurnar okkar eiga fyrir höndum tvo síðustu leiki sína í undankeppni EM 2024 en með sigrum þar tryggja þær sér sæti á Evrópumótinu sem verður haldið í lok árs í Sviss, Austurríki og Ungverjalandi.

Fyrri leikur liðsins verður í Lúxemborg á miðvikudaginn en en sá síðari á Ásvöllum á sunnudaginn.

Elín Jóna ræddi við Val Pál Eiríksson á æfingu íslensku stelpnanna í síðustu viku. Hún spilar í dönsku deildinni en segir það alltaf jafn gott að koma í landsliðsverkefni.

„Það er gaman að koma til Íslands, hitti fjölskylduna og hitta stelpurnar. Það er gott að endurhlaða sig með því að koma heim,“ sagði Elín Jóna en þær fá ekki mikið páskafrí þetta árið.

„Nei en ég er búin með deildina þannig að ég er komin í frí eftir þetta. Það er því fínt að halda áfram í gegnum páskana en taka svo smá frí,“ sagði Elín Jóna. Hvernig gerir hún upp tímabilið sitt með EH Álaborg.

„Við fórum upp í úrvalsdeildina sem er frábært því markmiðinu var náð. Við erum allar mjög glaðar,“ sagði Elín Jóna.

„Markmið er bara að vinna og komast á EM. Við ætlum líka að komast í eins góðan styrkleikaflokk og við getum með því að eiga tvo góða leiki,“ sagði Elín Jóna.

Það má finna allt viðtalið við hana hér fyrir neðan.

Klippa: Markmið er bara að vinna og komast á EM



Fleiri fréttir

Sjá meira


×