„Tryggið betri lýsingu við innganga, hugið að hellulögn, breikkið göngustíga, setjið fleiri örugg svæði fyrir fjölbreytta ferðamáta, fleiri bekki, meira grænt og vænna umhverfi fyrir börn. Við viljum versla í heimabyggð, halda í bestu fiskbúð austur-borgarinnar, kaupa nýbakað bakkelsi í bakaríinu, fara með föt í hreinsun, skerða lokkinn í klippingu, kaupa úr og skart í fermingargjöf eða náttföt handa betri helmingnum. Meira mannlíf og metnað í Mjódd,“ segir Sara Björg í aðsendri grein á Vísi um helgina.

Hún segir að síðustu tvö kjörtímabil hafi Reykjavíkurborg fjárfest fyrir hundruð milljóna í umbreytingu almenningssvæða í Mjódd. Til að fegra svæðið og gera það meira aðlaðandi. Samt sem áður sé svæðið ekki nýtt eins og hægt væri að nýta það.
„Svæðin sem voru gerð upp eru torgið fyrir framan Breiðholtskirkju, rýmið bakvið Bíóhúsið og að lokum torgið fyrir framan Þangbakka, syðri inngang göngugötunnar. Sett var upp falleg lýsing, bekkir, gróður og blóm til að lífga upp á svæðið,“ segir Sara Björg í grein sinni.

Hún segir afar sérstakt að bjóða íbúum fjölmennasta hverfis borgarinnar „upp á jafn hirðulaust og afskipt umhverfi og raun ber vitni“ og undrast að fasteignafélögin sem eigi svæðið átti sig ekki á mikilvægi þess að tryggja öryggi, gott aðgengi, aðlaðandi umhverfi viðskiptavina að fjölbreyttri þjónustu.“
Hún bendir jafnframt á að auk þeirra 23 þúsund sem búa í hverfinu sé Mjóddin ein fjölsóttasta skiptistöð borgarinnar en þar stoppi um sjö þúsund á dag. Hún segir því hvatann til staðar að gera betur.

„Viðhaldi er ábótavant, misfellur og brotnar hellur á göngustígum inni á eignasvæði lóðarhafa eru hættulegar öllum vegfarendum en þó sérstaklega eldra fólki og fólki með skerta hreyfigetu. Bílastæði eru geymslustæði fyrir atvinnubíla, vinnuvélar, snjómoksturstæki, vöru- og sendiferðabíla, ferðahýsi og önnur atvinnutæki. Rusl er ekki tínt, gangstéttir ekki sópaðar og veggjakrot ekki þrifið. Spónaplötur festar í staðinn fyrir brotnar rúður, engin hjóla- eða hlaupahjólastæði eru fyrir þau sem sækja svæðið á virkum ferðamátum. Nákvæmlega ekkert er gert til að gera svæðið aðlaðandi fyrir fólk, fyrir þau sem sækja þjónustu í Mjódd eða eiga leið þar í gegn,“ segir Sara Björg.

Hún segir mörg tækifæri til staðar á svæðinu og hvetur rekstraraðila til að standa saman og þrýsta á fasteignaeigendur til úrbóta.
„Við sem sækjum þjónustu í Mjóddina gerum kröfu á að þið sem eigið fasteignirnar og rekið ykkar starfsemi, hugið að okkur sem viljum sækja þjónustu í heimabyggð, hjólandi, gangandi eða akandi.“

Sara Björg segir þetta ákall frá íbúum svæðisins og það hafi komið skýrt fram á íbúafundi með borgarstjóra fyrir stuttu.
„Íbúarnir kölluðu eftir Meiri Mjódd, betri Mjódd. Þannig er kominn tími til að eigendavettvangur Mjóddar, fasteignaeigendur taki sig saman og leggi metnað sinn í að búa til metnaðarfullt borgarumhverfi við og undir einu yfirbyggðu göngugötu landsins. Tryggið betri lýsingu við innganga, hugið að hellulögn, breikkið göngustíga, setjið fleiri örugg svæði fyrir fjölbreytta ferðamáta, fleiri bekki, meira grænt og vænna umhverfi fyrir börn. Við viljum versla í heimabyggð, halda í bestu fiskbúð austur-borgarinnar, kaupa nýbakað bakkelsi í bakaríinu, fara með föt í hreinsun, skerða lokkinn í klippingu, kaupa úr og skart í fermingargjöf eða náttföt handa betri helmingnum. Meira mannlíf og metnað í Mjódd.“
