Auðunn Pálsson hreppstjóri Bónuss á Suðurnesjum rekur málið til febrúarmánaðar þegar heitavatnslögn sem lá frá Svartsengi til Reykjanesbæjar fór í sundur eftir að hraun flæddi yfir lögnina.
„Og misstum hitann. Og við brugðumst náttúrlega bara við því með því að safna saman hitablásurum og keyrðum hitablásara með rafmagns- og dísilvélum,“ segir Auðunn.
Auðunn segir ekkert lát á jarðhræringum hafa gert það að verkum að stjórnendur Bónus ákváðu að hrinda svokölluðum hamfaragámi í framkvæmd. Í honum eru eimarar, varmadælur og annar búnaður sem tryggir rafmagn, heitt vatn og kalt í búðinni ef til neyðarástands kemur.
Þannig sé hægt að tryggja fullt matvælaöryggi íbúa Suðurnesja í vatns- eða rafmagnsleysi.
„Við erum sjálfbær ef þannig færi, sem við vonum að geri ekki. En það virðist náttúrlega ekkert lát vera á þessu.“
Auðunn segir tilfinninguna góða meðal starfsmanna og viðskiptavina. „Þetta er svolítið svona öðruvísi, að hafa komið þessu fyrir og vera klárir í meira,“ segir Auðunn að lokum.