Handbolti

Menn fái sér páska­egg númer tvö en ekki tíu

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, er brattur fyrir stórleik liðsins á laugardaginn í Evrópubikarnum í handbolta. Sæti í undanúrslitum er í boði.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, er brattur fyrir stórleik liðsins á laugardaginn í Evrópubikarnum í handbolta. Sæti í undanúrslitum er í boði. Vísir/Arnar Halldórsson

Valur getur með sigri gegn Steaua Búkarest, á laugar­daginn kemur, tryggt sér sæti í undan­úr­slitum Evrópu­bikarsins í hand­bolta. Stór­leikur sem fram fer í N1-höllinni að Hlíðar­enda. Óskar Bjarni, þjálfari Vals, segir undir­búning sinna manna með hefð­bundnum hætti fyrir leik. Hann tekur ekki fyrir páska­eggja át sinna manna en segir það betra ef þeir fari í páska­egg númer tvö frekar en tíu.

Valur vann eins marks sigur á Steaua Búkarest, 36-35, í fyrri viður­eign liðanna úti í Rúmeníu á dögunum en saman­lögð úr­slit úr tveimur leikjum liðanna munu skera úr um hvort liðið heldur á­fram í undan­úr­slit Evrópu­bikarsins.

„Þetta er svipaður and­stæðingur og við höfum verið að mæta í Evrópu­keppninni hingað til. Lið með fjóra stóra og þunga línu­menn innan sinna raða, meðal annars lands­liðs­mann frá Svart­fjalla­landi. Þá er þetta lið með góðan mark­mann og góða horna­menn. Á­kveðin breidd af leik­mönnum.“

Gott lið sem á skilið virðingu

Steaua Búkarest hefur hins vegar verið í á­kveðnum meiðsla­vand­ræðum í allan vetur. 

„Það hefur ein­hvern vegin alltaf vantað ein­hverja tvo til þrjá leik­menn í liðið. Það hefur gert okkur erfitt fyrir í því að greina leik þessa liðs milli leikja. Við héldum því smá inn í ó­vissuna þegar að kom að fyrri leik okkar við þá á dögunum.“

Sá leikur byrjaði hins vegar vel fyrir Vals­menn sem voru betri aðilinn í fyrri hálf­leik.

„Áttum að vera svona fimm til sex mörkum yfir á þeim tíma­punkti. Svo þróaðist seinni hálf­leikurinn þannig að það var bara gott að geta klárað hann með þessa eins marks for­ystu. Þetta er bara gott lið sem við þurfum að bera mikla virðingu fyrir og spila mjög vel gegn á laugar­daginn kemur til þess að komast á­fram í undan­úr­slit.“

Benedikt Gunnar hefur farið á kostum í liði Vals á tímabilinu. Þetta er hans síðasta tímabil hér á landi, í bili hið minnsta. Hann hefur samið við norska meistaraliðið KolstadVísir/Hulda Margrét

Hvað er það svona einna helst í leik þinna manna sem þið þurfið að hafa á hreinu?

„Við þurfum að spila betri vörn en við vorum að gera í seinni hálf­leik á móti þeim í fyrri leiknum. Við fengum á okkur allt of mikið af mörkum þar. Þá kannski sér­stak­lega úr hraða­upp­hlaupum.

Við skorum sjálfir mikið af mörkum í leiknum og náðum heilt yfir að stýra leiknum meira, það voru fleiri tækni­f­eilar hjá þeim. Við lifum dá­lítið á því að geta hlaupið sem mest á svona and­stæðinga sem eru stærri og sterkari en við.

Sóknar­lega eigum við meira inni. Þrátt fyrir að við höfum skorað meira en þeir í fyrri leiknum. Þetta þarf bara að vera okkar leikur. Það þarf að vera stemning í húsinu. Það eru undan­úr­slit í boði og við þurfum bara að gera þetta al­menni­lega.

Við komust í undan­úr­slit tíma­bilið 2016/17. Við viljum komast þangað aftur og þurfum bara hörku­leik.“

Þá lýsir Óskar Bjarni yfir mikilli á­nægju með það hvernig staðið er að hlutunum hjá Val í tengslum við þátt­töku liðsins í Evrópu­keppni þetta tíma­bilið.

„Stjórn hand­knatt­leiks­deildarinnar og sjálf­boða­liðar hafa skapað al­vöru um­gjörð í kringum þessa leiki. Við viljum fara sem lengst núna í ár.“

Valsmenn þurfa á góðum stuðningi að halda í N1 höllinni á laugardaginn kemur. Vísir/Hulda Margrét

Mega gæða sér á páskaeggi

Það hefur verið í nógu að snúast hjá Vals­mönnum upp á síð­kastið og fjórir leikir á dag­skrá liðsins næstu rúmu vikuna. Valur varð bikar­meistari á dögunum og berst nú við topp Olís deildarinnar auk þess sem Evrópu­ævin­týrið fer að ná há­punkti.

Góður haus­verkur fyrir Óskar Bjarna að halda liðinu í sem besta standi svo lengi sem leik­menn haldast heilir.

„Það er mest gaman í þessu starfi að spila alla þessa leiki. Maður þarf að bera virðingu fyrir öllum verk­efnum, gera þetta al­menni­lega. Þetta er gaman en smá kúnst. Strákarnir eru orðnir vanir þessu.“

Valsmenn hafa geta leyft sér að fagna mikið hingað til á tímabilinu. Hver veit? Kannski fagna þeir sæti í undanúrslitum Evrópubikarsins á laugardaginn kemurVísir/Hulda Margrét

Í þessari þéttu leikja­dag­skrá, eru það fyrir­mæli frá þjálfaranum að leik­menn haldi sig frá páska­eggja áti?

„Nei, nei. Bara að fá sér páska­egg og lifa venju­legu lífi. Þetta verður að vera þannig. Leik­menn missa hins vegar dá­lítinn frí­tíma. Þetta er bara hand­bolti næstu daga. En við elskum hand­bolta, þetta er bara gaman. Kannski bara best að menn fái sér egg númer tvö en ekki tíu.“

Leikur Vals og Steaua Búkarest í átta liða úrslitum Evrópubikarsins í handbolta fer fram í N1 höllinni að hlíðarenda klukkan sex á laugardaginn kemur. Leiknum verður lýst í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×