Körfubolti

„Ekki týpan til að gefast upp“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Callum Lawson í bikarúrslitaleiknum á móti Keflavík um síðustu helgi.
Callum Lawson í bikarúrslitaleiknum á móti Keflavík um síðustu helgi. Vísir/Hulda Margrét

Þau eru stutt og hnitmiðuð skilaboðin frá Tindastólsmanninum Callum Lawson á samfélagsmiðlum nú þegar úrslitastundin nálgast í deildarkeppni Subway deildar karla í körfubolta.

Stólarnir töpuðu á móti Keflavík í bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi eftir að hafa tapað síðustu sextán mínútum leiksins með 27 stigum, 20-47.

Úrslitin eru gríðarleg vonbrigði fyrir liðið enda 59-45 yfir í leiknum þegar þriðji leikhluti var næstum því hálfnaður.

Vísir/Hulda Margrét

Þau vonbrigði bætast ofan á stöðu liðsins í deildinni þar sem Tindastólsmenn eru langt frá því að vera öruggir með sæti í úrslitakeppninni.

Callum Lawson þekkir varla annað en að vinna titil síðan hann kom til Íslands en vann varð deildar- og bikarmeistari með Val í fyrra, Íslandsmeistari með Val árið árið 2022 og Íslandsmeistari með Þórsurum vorið 2021.

Hann hefur unnið titil á öllum þremur heilu tímabilum sínum hér á landi en nú gæti hann mögulega misst af úrslitakeppninni.

Skilaboðin hans eru kannski ákall í tilefni stöðunnar. „Ekki týpan til að gefast upp,“ skrifaði Callum Lawson og birti myndir af sér úr bikarúrslitaleiknum þar sem hann skoraði 11 stig og tók 10 fráköst en hitti aðeins úr 5 af 13 skotum sínum.

Tveir leikir eru eftir af deildarkeppninni og Stólarnir eru eins og er inn í úrslitakeppninni með tveimur stigum meira en Stjarnan sem situr í níunda sætinu.

Stjörnuliðið er hins vegar betri innbyrðis á móti Stólunum og verður því ofar endi liðin jöfn að stigum.

Tindastóll mætir Hetti á útivelli annað kvöld á sama tíma og Stjarnan tekur á móti Grindvíkingum. Í lokaumferðinni fá Stólarnir Hamar í heimsókn en Stjarnan tekur þá á móti Breiðabliki.

Á blaði er verkefnið þægilegra fyrir Stólana en Stjörnumenn ætla sér örugglega að sýna fram á annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×