Vísir fjallaði um dóm sem féll 28. febrúar í máli Hrafntinnu Eirar Hermóðsdóttur og Ágústs Leós Björnssonar gegn flugfélaginu Neos vegna ógreiddra flugbóta en parið var þar dæmt til að greiða 350 þúsund króna málskostnað.
Í kjölfar umfjöllunar Vísis birti Ómar færslu á Facebooksíðu Flugbóta.is þar sem hann gerði að því skóna að þau Hrafntinna Eir og Ágúst Leó kynnu annað hvort ekki að lesa sér til gagns eða hefðu hreinlega verið að ljúga. Máli sínu til stuðnings birti hann tölvupóstsamskipti sín við umbjóðendur sína opinberlega.
Hafi hótað parinu málsókn
Parið hefur nú leitað til Einars Huga Bjarnasonar lögmanns, sem gætir hagsmuna þess í deilum við Ómar. Í samtali við Vísi á dögunum sagði Einar Hugi að í kjölfar viðtals við parið á Vísi hafi Ómar sett sig í samband við þau með töluvpósti og hótað „þeim málsókn dragi þau ummæli sín ekki til baka og á auk þess í hótunum við móður annars umbjóðanda míns.“
Eftir þau samskipti hafi hann „birt færslu á Facebook þar sem hann rekur málið út frá sínum bæjardyrum, talar niður til fyrrum skjólstæðinga sinna og birtir skrifleg samskipti sín við þau ásamt ljósmynd af vegabréfi annars umbjóðanda míns,“ sagði Einar.
Facebook færslan hafi núna verið lagfærð og ljósmynd af vegabréfi tekin út. Hins vegar standi eftir skrifleg trúnaðarsamskipti parsins við lögmanninn og þau orð sem hann láti falla í þeirra garð.
Láta krók koma á móti bragði
Einar Hugi hefur upplýst Vísi um að umbjóðendur hans hafi tekið ákvörðun um að kvarta yfir vinnubrögðum Ómars til Lögmannafélags Íslands og Persónuverndar.
Þá hafi þau tekið ákvörðun um að leggja fram kæru til lögreglu vegna birtingar lögmannsins á viðkvæmum persónulegum upplýsingum/gögnum um þau á samfélagsmiðlunum.