Innlent

Nokkur út­köll þar sem kalla þurfti til for­eldra og barna­vernd

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti útkalli í heimahúsi í nótt þar sem maður hafði verið sleginn með spýtu í höfuðið.
Lögregla sinnti útkalli í heimahúsi í nótt þar sem maður hafði verið sleginn með spýtu í höfuðið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti þó nokkrum útköllum í gærkvöldi og nótt þar sem ungmenni komu við sögu og í þremur tilvikum þurfti að kalla til foreldra og fulltrúa barnaverndar.

Lögreglu barst meðal annars tilkynning um líkamsárás í póstnúmerinu 108 þar sem tveir voru handteknir. Báðir voru undir lögaldri og málið unnið með foreldrum og barnaverndaryfirvöldum.

Þá barst tilkynning um að barn væri að aka stolnum bíli í póstnúmerinu 109 og þar var einnig haft samband við foreldra og barnavernd. Foreldrum og barnavernd var svo einnig get viðvart þegar tilkynning barst um ölvaða unglinga í póstnúmerinu 112.

Lögregla var einnig kölluð út vegna yfirstandandi innbrots í miðborginni og handtók tvo í tengslum við málið. Þá bárust sex tilkynningar um partýhávaða og tvær tilkynningar um ungmenni að skemma hluti í og umhverfis Mjóddina.

Tilkynnt var um sprengingu í Kópavogi en samkvæmt yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar var líklega um flugelda að ræða. Tveir voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum og fimm sektaðir fyrir of hraðan akstur. Einn þeirra ók á 176 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.

Lögreglu bárust einnig tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir í 104 og mann að elta barn. Hvorugur aðili fannst þegar málin voru athuguð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×