Frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra til breytinga á húsleigulögum var lagt fram fyrr í mánuðinum, en umsögn Húseigendafélagsins um það var birt í gær.
Lögmaður Húseigendafélagsins segir frumvarpið munu draga úr framboði leiguhúsnæðis, verði það að lögum. Hann bendir á að leigumarkaðurinn sé borinn uppi af einstaklingum sem leigusölum.
„Ef það á að fara að herða frekar á kröfum til leigusala, til dæmis með skráningu samninga í leiguskrá og skráningu á breyttu leiguverði að viðlagrði refsiábyrgð, þá teljum við að það muni stuðla að því að leigusalar taki frekar út íbúðir sínar af almenna leigumarkaðnum,“ segir Sigurður Orri Hafþórsson, lögmaður félagsins.
Eigendur muni þá frekar kjósa kosti eins og Airbnb, eða jafnvel að selja íbúðir sínar.
„Íbúðirnar hverfa þannig af leigumarkaðnum, sem verður þá til þess að með færri íbúðum, þá auðvitað ýtist leiguverðið upp.“
Frumvarpið gangi þannig gegn markmiði sínu um aukið húsnæðisöryggi leigjenda.
„Við vitum það alveg að leigumarkaðurinn er í lamasessi en hann verður ekki lagaður með svona reglubreytingum. Það þarf fleiri íbúðir inn á markaðinn.“
Hér að neðan má nálgast umsögn Húseigendafélagsins um frumvarpið.