Bankaráð Landsbankans varð í dag við kröfu Bankasýslunnar um að fresta aðalfundi bankans sem halda átti á morgun til 19. apríl. Bankasýslan fer með hlut ríkisins í fjármálastofnunum og þar með 98 prósenta eignarhlut í Landsbankanum.
Samkvæmt bréfasendingum í gær kom Bankasýslan af fjöllum þegar Landsbankinn tilkynnti á sunnudag að hann hefði skrifað undir bindandi kaupsamning við Kviku banka um kaup á tryggingafélaginu TM fyrir 26,8 milljarða króna.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra lýsti strax á sunnudagskvöld yfir andstöðu við þessi áform. Hún hafði þó heyrt af áhuga bankans á tryggingafélaginu fyrir nokkrum vikum en vísar til armlengdarsjónarmiða sem eiga að tryggja að ráðherra hafi ekki bein afskipti af bönkunum
„Það er þá á ábyrgð bankaráðs Landsbankans að upplýsa og vera í samskiptum við Bankasýsluna,“ segir fjármálaráðherra.
Misvísandi yfirlýsingar
Bankasýslan skipar alla sjö bankaráðsmenn Landsbankans og hefur óskað eftir skýringum frá þeim á aðdraganda þess að ákveðið var að festa kaup á TM. Ráðherra telur rétt að bíða eftir þeim svörum.

Þórdís Kolbrún sagði hins vegar í Facebook færslu sinni á sunnudag að þessi kaup á tryggingafélaginu yrðu ekki gerð með hennar samþykki án þess að Landsbankinn yrði seldur á sama tíma. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ítrekaði á Alþingi í gær að það kæmi ekki til greina.
Þessar yfirlýsingar eru ekki alveg á pari?
„Nei, ég átta mig auðvitað alveg á því hvað segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar sem það er ekki á dagskrá að hefja sölu Landsbankans heldur er á dagskrá að klára sölu á Íslandsbanka,“ segir Þórdís Kolbrún. Ríkisstjórnin hefði afgreitt frumvarp um þá sölu frá sér í dag sem miðaði því að sölu á öllum hlut ríkisins í Íslandsbanka gæti lokið á næsta ári.

„En það segir heldur ekki í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar né eigendastefnu ríkisins þegar kemur að fjármálafyrirtækjum að það eigi einhvern veginn að þenja út ríkisbanka, kaupa fyrirtæki á markaði og gera þau að ríkisfyrirtækjum og stíga inn á tryggingamarkað,“ segir fjármálaráðherra.
Skýra þarf samskipti ráðherra og Bankasýslu

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segir enga pólitíska umræðu hafa verið tekna um það hvort reka ætti Landsbankann með þeim hætti sem þarna birtist. Þarna hefði ákveðiðfrumhlaup átt sér stað..
„Og sýnir að það er ákveðið stjórnleysi til staðar. Svo má líka nefna að það átti að vera búið að leggja niður þessa Bankasýslu. Það þarf að komast til botns í því hvers konar samskipti hafa verið á milli fjármálaráðherra og bankasýslu undanfarin tvö ár eða eftir að þessi fjármálaráðherra tók við. Vegna þess að ég hef átilfinningunni að það hafi ekki verið mikil samskipti þarna á milli,“ segir Kristrún.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata er furðulostin yfir að Bankasýslan haldi enn á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum eftir yfirlýsingar um að leggja ætti hana niður.
„Að þetta mál hafi komið þeim í opna skjöldu held ég að sé enn ein ástæða þess að þessi stofnun er ekki fær um að sinna sínu hlutverki. Við hljótum að óska skýringa á því hvað er eiginlega í gangi hjá ríkisstjórninni sem hefur ekki hugmynd um hvað er í gangi í bönkum sem hún á nánast allan eignarhlutann í,“ sagði Þórhildur Sunna.