Handbolti

Bjarni Ó­feigur frá Þýska­landi til KA

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarni Ófeigur Valdimarsson er á leið norður í sumar.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson er á leið norður í sumar. KA

Handknattleikslið KA hefur tryggt sér góðan liðsstyrk fyrir næstu leiktíðir því Bjarni Ófeigur Valdimarsson hefur skrifað undir samning til þriggja ára við félagið.

Bjarni er 25 ára gamall og leikur í stöðu vinstri skyttu en er auk þess öflugur varnarmaður.

Hann er í dag leikmaður Minden, sem er í fallbaráttu þýsku 2. deildarinnar, og hefur skorað 64 mörk og átt 41 stoðsendingu í 23 leikjum fyrir liðið í vetur.

Áður lék Bjarni í Svíþjóð, með Skövde, og spilaði tvívegis til úrslita um sænska meistaratitilinn, árin 2021 og 2022.

Bjarni lék með yngri landsliðum Íslands og var einnig kallaður inn í A-landsliðið á EM í Ungverjalandi árið 2022, eins og reyndar óvenju margir leikmenn vegna kórónuveirufaraldursins.

„Ég er ótrúlega spenntur að taka slaginn með KA næstu árin þar sem að ég hef bullandi trú á þessu liði og KA sem félagi. Hlakka til að mæta norður og spila í gulu treyjunni, áfram KA!“ segir Bjarni í skilaboðum á heimasíðu KA.

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA-manna, er að vonum ánægður með liðsstyrkinn sem KA fær næsta sumar:

„Mér líst ótrúlega vel á að fá Bjarna norður og mjög spenntur að vinna með honum. Þetta er leikmaður á besta aldri og er öflugur á báðum endum vallarins þannig að já, ég er mjög spenntur að vinna með honum. Ég er handviss um að hann mun koma flottur inn í það verkefni sem við erum að vinna hér í KA með okkar unga lið. Ég hef bara heyrt góða hluti af Bjarna, hann æfir mjög vel og er með gott hugarfar. Hann mun hjálpa ungu strákunum okkar, hefur verið að spila sem atvinnumaður og veit hvað þetta snýst um. Þannig að við bindum miklar vonir við komu hans hingað norður,“ segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×