Fréttastofa hefur undanfarna daga fjallað um starfsemi bílastæðaþjónustunnar Base Parking á Keflavíkurflugvelli.
Fjölmargir hafa stigið fram og ekki sagt farir sínar sléttar eftir viðskipti við fyrirtækið. Frásagnirnar skipta tugum ef ekki hundruðum. Meðal þeirra mála sem oftast koma upp eru seinkanir þegar bílum er skilað, týndir lyklar, tjón á bifreiðum, grunsamlega hækkað kílómetragjald eða rusl og matarleifar í bílunum. Þá hafa margir lýst því að erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við forsvarsmenn fyrirtækisins sem svari kvörtunum seint eða alls ekki.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna kannast vel mál af þessu tagi.
„Í fyrsta lagi er það náttúrulega alveg glatað að lenda í því að svona sé farið með eigur manns. Þegar neytendur treysta fyrirtæki fyrir eigum sínum þá verður að vanda til verka. Ekki síst þegar um bíla er að ræða sem geta verið mjög dýrir og því alveg glatað að lenda í svona.“
Um það bil eitt mál á mánuði
Breki segir um það bil eitt mál á mánuði berast til Neytendasamtakanna, þar sem Base Parking kemur við sögu. Öðru máli gegni um önnur fyrirtæki í sama bransa, þar sem eitt og eitt mál komi vissulega upp en ekkert þessu líkt.

„Þetta er alveg einstakt, hvað mál tengd þessu fyrirtæki koma oft á okkar borð. Þetta eru svona svipuð mál og hafa verið til umfjöllunar. Lyklar hafa verið að týnast eða kílómetrastaða hefur hækkað grunsamlega mikið í geymslu hjá fyrirtækinu og þar fram eftir götunum.“
Þá segir Breki að það sé skýrt í lögum að verði fólk fyrir tjóni, eigi það rétt á bótum. Því miður geti hinsvegar oft verið erfitt að sanna tjónið og heimfæra kostnað. Hann hvetur fólk til að hafa samband við Neytendasamtökin sem geti verið því innan handar.
„Við höfum verið í sambandi við þetta fyrirtæki og það verður nú að segjast að þó það taki yfirleitt langan tíma, að okkar mati allt of langan tíma, þá hefur nú náðst niðurstaða í þau mál sem við höfum haft til meðferðar,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendsamtakanna.