Frá þessu er greint á mbl.is, sem hefur eftir lögmanni Fjelagsins að Davíð hafi haft á leigu hús við Vesturgötu 2 og húsnæði á Tryggvagötu 20.
Davíð hafði í huga að opna mathöll við Vesturgötu en leigusamningnum var rift 7. mars síðastliðinn vegna vanefnda. Var það tveimur dögum eftir að Davíð var handtekinn í umfangsmiklum lögregluaðgerðum.
„Eigandi eignarinnar að Vesturgötu 2 hefur nú þegar hafið vinnu við frekari þróun eignarinnar, meðal annars með samtölum við áhugasama aðila um rekstur í eigninni,“ er haft eftir lögmanninum í frétt mbl.is.
Á Tryggvagötu starfrækti Davíð veitingastaðinn Pho Vietnam, einn fimm staða í þeirri keðju.
Sex í gæsluvarðhaldi í þrjár vikur
Eins og áður segir var Davíð handtekinn í umfangsmiklum lögregluaðgerðum í síðustu viku. Davíð, sem einnig er þekktur undir nafninu Quang Le, kom fyrst til umfjöllunar fjölmiðla á síðasta ári þegar upp komst um ólöglegan matvælalager í Sóltúni.
Davíð er grunaður um mansal, peningaþvætti og skipulagða brotastarfsemi í gegnum fyrirtæki sín Vy-þrif, Pho Vietnam og svo sóiðast Wok On. Veitingastaða- og fasteignaveldi hans er umfangsmikið en skuldir líka miklar.
Í aðgerðum lögreglu í síðustu viku fór hú í húsleit á 25 stöðum um landið. Sex voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald grunaðir um aðild að málinu og hefur varðhaldið ver framlengt um tvær vikur.
Auk Davíðs er kærasta hans til margra ára í varðhaldi. Sömuleiðis bróðir hans og mágkona. Þá er kona, sem starfaði sem bókari fyrir Davíð á meðal þeirra sex sem eru í varðhaldi. Fréttastofu er ekki kunnugt um hver sjötti einstaklingurinn er.
Sá Wok On fyrir starfsfólki áður en hann varð eini eigandinn
Auk þessa sex einstaklinga eru þrír til viðbótar sakborningar í málinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er einn þeirra Kristján Ólafur Sigríðarson, stofnandi og fyrrverandi eigandi Wok On. Hann er einn Íslendinga í þessum hópi. Kristján Ólafur stofnaði Wok On í júní 2016 og stækkaði reksturinn hratt.
Kristján Ólafur hefur ekki viljað svara fyrirspurnum fréttastofu vegna málsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu sá Davíð Wok On fyrir starfsfólki, sem gekk vaktir sem brutu í bága við starfsmannasamning þeirra og vinnulöggjöf.
Kristján Ólafur sagði í yfirlýsingu í nóvember, eftir að matvælalagerinn uppgötvaðist í Sóltúni, að Wok On tengdist lagernum ekkert. Þá hefði Davíð engin tengsl við veitingastaðinn þó hann ætti 40 prósenta hlut í Wok on Mathöll ehf. sem starfrækti veitingastaðina á Höfða og í Hafnarfirði.
Í janúar síðastliðnum urðu eigendaskipti hjá Wok On samkvæmt gögnum í fyrritækjaskrá. Davíð tók við og Kristján Ólafur hætti. Nokkrum vikum síðar var Kristján Ólafur dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna umfangsmikilla skattsvika.
Kristján Ólafur hefur ekkert viljað tjá sig um söluna á Wok On til Davíðs. Eftir því sem fréttastofa kemst næst þá urðu eigendaskiptin nokkrum vikum fyrr þótt ekki hafi verið skrifað undir eigendaskiptin formlega fyrr en um miðjan janúar.