Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, til Eyjólfs Ármannssonar, þingmanns Flokks fólksins, um greiðslu viðbótarlauna til starfsmanna ríkisins.
Þar kemur einnig fram að mikla fjölgun þeirra sem hefur síðustu ár þegið slíkar greiðslur megi rekja til mönnunarvanda og álags sem skapaðist í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins.Alls hafa verið greiddir síðustu fjögur árin um 4,5 milljarðar í viðbótarlaun á grundvelli stofnanasamninga. Af þeim hafa um 3,5 þeirra verið greiddir til starfsmanna á Landspítalanum. Árið 2020 voru greiddar 395 milljónir, þar af 149 til Landspítalans.
Árið 2021 voru greiddar 236 milljónir alls og ekkert til starfsmanna Landspítalans. Árið 2022 voru greiddir 2,4 milljarðar og þar af 2,2 til Landspítalans. Í fyrra voru svo alls greiddir 1,4 milljarðar og þar af 1,2 til starfsmanna Landspítalans.
Í svari ráðherra kemur einnig fram hversu margar kennitölur eru að baki þessara greiðslna en árið 2020 fengu 2.574 greiðslu vegna viðbótarlauna, 1.165 árið 2021 og svo um fimm þúsund í fyrra og árið áður, 2022.
Mismikið greitt
Ef tekið er dæmi um árið 2020 er um 149 milljónir að ræða sem fóru til 1.191 einstaklinga. Að meðaltali væri það þá um 125 þúsund krónur á hvern einstakling.
Árið 2022 fengu 4.184 einstaklingar viðbótargreiðslur sem væru þá um hálf milljón að meðaltali ef upphæðinni er deilt jafnt á alla. Það var alls ekki gert þannig því fram kemur í svarinu að samkvæmt upplýsingum úr launakerfi ríkisins hafi hæsta greiðsla til starfsmanns sem telst til viðbótarlauna numið samtals 9.743.550 kr. á launategundinni „viðbótarlaun á grundvelli stofnanasamninga“ og hafi verið greidd árið 2022 á Landspítalanum.

Mikið hefur verið fjallað um svokallaðar viðbótargreiðslur síðustu mánuði eftir að greint var frá slíkum greiðslum til starfsmanna Skattsins. Tilkynnt var í síðasta mánuði að hætt yrði að greiða bónurgreiðslur til starfsmanna þar.
Tvö ný launaþrep taka við af bónusgreiðslum
Fram kemur í svari ráðherra að greiðslurnar hafi takmarkast af tveimur prósentum af launasummu starfsfólks Skattsins sem tilheyrði stéttarfélögum BHM og að fjórðungur þeirra hafi getað fengið greiðslu í hvert og eitt skipti. Greiðslurnar hafi verið framkvæmdar tvisvar á ári og hafi numið hálfri milljón. Allir fengu sömu greiðslu.
Eftir að kerfið var lagt af var gerð breyting á stofnanasamningi og var tveimur launaþrepum bætt við í stað þessara viðbótarlauna, annars vegar bætist við launaþrep eftir þrjú ár í starfi og hins vegar launaþrep eftir fimm ár í starfi.