„Því var treyst að formaður myndi starfa samkvæmt eindregnum vilja sveitastjórna og bókun stjórnar og myndi upplýsa aðila vinnumarkaðarins og forsætisráðherra um afstöðuna með skýrum hætti. Ljóst er að svo var ekki,“ segja oddvitarnir í sameiginlegri grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.
Í greininni segir að oddvitarnir fagni nýgerðum kjarasamningum en á sama tíma hafi „aðþrengd“ sveitarfélögin fengið í fangið gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
Meginkrafan á sveitarfélögin hefði frá upphafi snúið að hóflegum gjaldskrárhækkunum, sem sveitarfélögin hefðu ætlað að bregðast við en hugmyndir um gjaldfrjálsar skólamáltíðir hefðu fyrst verið kynntar á fundi fyrir rúmum tveimur vikum.
Um það bil 50 fulltrúar sveitarfélaga hefðu verið viðstaddir umræddan fund og það komið flestum á óvart að sveitarfélögin væru allt í einu orðin lykilbreyta í kjaraviðræðunum og með þessum hætti. Andstaðan á fundinum hefði verið nær einróma og ekki einskorðast við Sjálfstæðisflokkinn.
„Brún okkar sveitarstjórnarmanna þyngdist enn þegar í ljós kom að viðræður formannsins við ríkisvaldið hófust í upphafi árs og var framhaldið í lok janúar eða mánuði áður en sveitarstjórnarfólki var kynnt þessi hugmynd.“
Annar fundur var haldinn 1. mars og enn var mikil mótstaða meðal flestra sem tjáðu sig, segja oddvitarnir.
Stjórn sambandsins samþykkti í framhaldinu eftirfarandi bókun:
„Stjórn Sambandsins óskar eftir því að ríkisvaldið leiti annarra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga. Stjórnin er reiðubúin til samtals um málið á breiðum grundvelli með það að leiðarljósi að tryggja barnafjölskyldum kjarabætur og velferð.“
Oddvitarnir segja formanninn hins vegar ekki hafa unnið samkvæmt vilja sveitarstjórna né bókun stjórnar og þá hafi hún haldið því ranglega fram í fjölmiðlum að sátt ríkti um framkvæmdina.
„Í dag hittast sveitarstjórnarfulltrúar af öllu landinu á ársþingi Sambandsins og þar er afar mikilvægt að formaðurinn skýri aðkomu sína að kjarasamningsgerð á almennum markaði,“ segja oddvitarnir að lokum.