María Lilja kærði til siðanefndar frétt Mbl frá 20. janúar síðastliðnum þar sem fjallað var um kæru ónefnds lögmanns á hendur palestínskum mótmælendur á Austurvelli fyrir hatursorðræðu og hótanir.
Í fréttinni kom fram að lögmaður, sem ekki var nafngreindur í fréttinni, hefði lagt fram kæru sem beindist aðallega að einum nafngreindum mótmælanda sem sagði á Facebook:
„Drepið gyðingana hvar sem þið finnið þá, rífið þá á hol, mígið yfir þá [og] lík þeirra. Ég sver að við munum dæma þá að við hlið Paradísar. Bölvun hvíli á sonum Zíons [gyðingum], sonum apa og svína.“
Fram kom í frétt Mbl að lögmaðurinn óskaði eftir flýtimeðferð hjá dómstólum vegna þess að hinir kærðu hefðu meðal annars birt myndir af árásarvopnum á samfélagsmiðlum.
María Lilja taldi umfjöllunina ekki setta fram af heiðarleika og fela í sér órökstuddar ásakanir á hendur stórum hópi fólks í viðkvæmri stöðu. Ætla mætti að vinnubrögðin væru til þess fallin að kynda undir hatur og óvild í garð ákveðins hóps. Þá var gerð athugasemd við myndaval með fréttinni en myndin var af palestínsku fólki á Austurvelli.
Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að þar sem María Lilja væri ekki til umfjöllunar í fréttinni og hefði ekki bein tengsl við umfjöllunarefnið þá uppfyllti aðild hennar ekki málsmeðferðarreglur siðanefndarinnar. Var kærunni því vísað frá.