Innlent

Dómur fyrir nauðgun á Írskum dögum stendur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það var sumarið 2017 á Akranesi sem brotið átti sér stað.
Það var sumarið 2017 á Akranesi sem brotið átti sér stað. Vísir/vilhelm

Eldin Skoko, karlmanni á 37. aldursári, hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í nauðgunarmáli sem Landsréttur tók til meðferðar eftir að beiðni hans um endurupptöku var samþykkt. Eldin fékk tveggja og hálfs árs dóm í héraði og Landsrétti árið 2018 og fór úr landi þegar honum var veitt reynslulausn árið 2020.

Málið er athyglisvert fyrir þær sakir að Skoko hefur þegar afplánað dóm sinn, var vísað úr landi og sætir endurkomubanni. Hann óskaði aftur á móti eftir endurupptöku vegna þess að Landsréttur var ólöglega skipaður í máli hans. 

Einn dómaranna var meðal þeirra fjögurra sem Sigríður Á. Andersen þáverandi dómsmálaráðherra skipaði í trássi við niðurstöðu hæfnisnefndar. Málið leiddi að lokum til afsagnar ráðherra og endurupptöku á fjölmörgum málum í Landsrétti.

Á útihátíð með frændsystkinum

Skoko var gefið að sök að hafa aðfaranótt 1. júlí 2017 á Akranesi þar sem Írskir dagar fóru fram haft samræði og önnur kynferðismök við stúlku gegn hennar vilja en hann fann stúlkuna í annarlegu ástandi, ælandi og liggjandi á innkeyrslu við heimili hans, tók hana inn í húsið, lagði á bedda sem þar var. Hann hafi því næst klætt stúlkuna úr öllum fötunum, snert kynfæri hennar, sett fingur í leggöng hennar, lagst ofan á hana og haft við hana samræði.

Hann hefði þannig notfært sér að hún gæti ekki veitt honum mótspyrnu vegna ástands hennar sem var þannig að hún var máttlaus, með náladofa, átti erfitt með hreyfingar og mál og hafði ekki fulla meðvitund. Auk þess hefði hann notfært sér að hún var einsömul, í ókunnugu húsnæði og hann var henni ókunnugur.

Stúlkan hafði farið út að skemmta sér með frændsystkinum sínum um kvöldið. Hún sagðist hafa drukkið 3-4 bjóra og verið með einn bjór í vasanum þega hún kom inn á skemmtistað. Þar hafi hún fengið glas og drukkið bjórinn úr því.

Hringdi í móður sína

Fljótlega hafi hún fundið fyrir miklum dofa í puttunum, vörunum og tungunni, farið út í port fyrir utan staðinn og kastað upp. Hún hafi þá fundið fyrir dofa á fleiri stöðum, meðal annar í fótunum. Einhvern veginn hafi hún náð að koma sér í nálæga innkeyrslu og hringt í móður sína sem hafi þá farið að leita að henni.

Þar hafi Skoko komið að henni, tekið hana upp og borið inn í hús og lagt hana inn í rúm. Þá hafi hann komið upp í rúmið til hennar, án fata, lagst fyrir aftan hana og byrjað að káfa á henni. Hún hafi ekki getað hreyft sig vegna náladofans og orðið hrædd. Eftir stutta stund hafi hann snúið henni á bakið og klætt hana úr buxunum.

„Ákærði hefði því næst klætt hana úr bolnum og nærbuxunum, auk þess að losa af henni brjóstahaldarann með því að fara undir bakið á henni. Hann hefði nuddað sér mikið upp við hana, sett fingur upp í leggöngin og káfað alls staðar á henni. Hún væri hins vegar ekki alveg viss hvort ákærði hefði einnig sett lim sinn inn í leggöng hennar og haft við hana samfarir. Alla vega hefði hún séð og fundið stífan lim hans nuddast þétt upp við sig, en hún hefði ekki hugmynd um hvort ákærði hefði haft sáðlát,“ sagði í niðurstöðu héraðsdóms.

Ekki sjálfri sér lík

Stúlkan sagðist í skýrslu sinni ekki hafa vitað af sér í einhvern tíma eftir þetta en síðan rankað við sér, klætt sig, hlaupið út og hringt í frænda sinn sem hún hafði verið að skemmta sér með fyrr um kvöldið.

Fjölskyldumeðlimir stúlkunnar báru allir vitni um það að daginn eftir hafi hún ekki verið sjálfri sér lík en hafi aftur farið út að skemmta sér og meðal annars farið á brekkusöng. Hún hafi þá um kvöldið treyst vinkonum sínum fyrir því sem gerðist og var atvikið tilkynnt til lögreglu.

Skoko neitaði sök og sagði stúlkuna hafa átt frumkvæði, beðið sig að setjast hjá henni og káfað á honum. Hann kvaðst hafa sett fingur í leggöng hennar í um 2-3 sekúndur en kannaðist ekki við að hafa átt við hana samfarir. Hann hafi fljótlega áttað sig á ástandi stúlkunnar, breitt yfir hana teppi og lagst til svefns í sínu eigin rúmi.

DNA innan á nærbuxum

Við DNA rannsókn fannst blanda DNA-sniða frá stúlkunni og Eldin á innanverðri framhlið nærbuxna hans.

Meðal gagna málsins var vottorð sálfræðings sem kvað á um að stúlkan hafi upplifað mikla ógn, ofsa-ótta og bjargarleysi þegar brotið átti sér stað. stúlkan upplifði einkenni áfallastreituröskunar eftir að brotið átti sér stað og voru þau einkenni enn til staðar sjö vikum seinna.

Það var mat dómsins að framburður stúlkunnar væri í alla staði trúverðugur og hefði frá upphafi verið stöðugur og skýr. Framburður Skoko um að stúlkan hafi verið samþykk kynferðislegum samskiptum þeirra var hins vegar ekki talinn trúverðugur.

Auk tveggja og hálfs árs dóms var Skoko einnig gert að greiða stúlkunni eina og hálfa milljón króna í bætur.

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að sakfella Skoko en að honum yrði gerð refsing því hann hefði þegar afplánað dóm sinn. 


Tengdar fréttir

Ríkið viðurkennir brot í fjórtán málum hjá MDE

Íslenska ríkið hefur viðurkennt brot gegn kærendum í fjórtán málum sem voru til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu og eiga það öll sameiginlegt að hafa verið höfðuð vegna ólöglegrar skipan dómara við Landsrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×