Magdeburg varð þar með fjórða og síðasta liðið til þess að tryggja sér strax sæti í 8-liða úrslitunum, og sleppa við umspilið sem nú tekur við hjá liðunum sem enduðu í 3.-6. sæti í A- og B-riðli keppninnar.
Magdeburg endar væntanlega í 2. sæti B-riðilsins, en Barcelona dugar jafntefli í kvöld á heimavelli gegn Montpellier til að tryggja sér efsta sætið. Veszprém, sem gat tekið 2. sætið af Magdeburg með sigri, endar hins vegar í 3. sæti.
Leikurinn í Ungverjalandi í kvöld var jafn, 22-22, þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka en með Svíann Felix Claar í stuði náði Magdeburg að sigla fram úr og vinna sigur.
Claar skoraði níu mörk en Ómar Ingi Magússon var næstmarkahæstur hjá Magdeburg með fimm mörk og Janus Daði Smárason skoraði fjögur. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark.