Körfubolti

Fara yfir ó­trú­legt af­rek LeBron: „Það er ekkert að hægjast á honum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
LeBron James varð um helgina fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar til að skora yfir 40.000 stig á sínum ferli.
LeBron James varð um helgina fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar til að skora yfir 40.000 stig á sínum ferli. Kevork Djansezian/Getty Images

Lögmál leiksins verður á sínum stað á Stöð 2 Sport 2 í kvöld þar sem farið verður yfir allt það helsta úr heimi NBA-deildarinnar í körfubolta.

Í þætti kvöldsins verður meðal annars farið yfir ótrúlegt afrek LeBron James sem varð um helgina fyrsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að skora yfir 40.000 stig á sínum ferli.

LeBron, sem verður fertugur í lok þessa árs, virðist hvergi nærri hættur og verður spennandi að fylgjast með hversu mörg stig hann endar með þegar skórnir fara að lokum upp í hillu. Alls hefur hann skora 40.017 stig á sínum NBA-ferli, tæplega 2.000 stigum meira en Kareem Abdul-Jabbar sem er næststigahæstur í sögunni.

„Ég man þegar maður var að ræða þetta í kringum 2007-2008, er hann að fara að ná Jabbar?“ spyr Tómas Steindórsson í þætti kvöldsins. „Þá þótti manni það óhugsandi. Hann þyrfti að vera með 25 stig að meðaltali í leik þar til hann veðrur fertugur. Það er bara ekki hægt. En hingað erum við komin.“

Sigurður Orri Kristjánsson tók í sama streng og Tómas, en sagði það að vera orðinn stigahæstur í sögunni vera mun stærra afrek en að ná að brjóta 40.000 stiga múrinn.

„Það er ekkert að hægjast á honum,“ bætti Tómas þá við og Kjartan Atli Kjartansson, stjórnandi þáttarins, virtist vera sammála honum.

„Það kemur kannski aðeins sjaldnar, en þegar hann nær að trekkja líkamann í gang þá er hann bara eimreið. Þetta er algjörlega magnað,“ sagði Kjartan, en brot úr þætti kvöldsins má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Fara yfir ótrúlegt afrek LeBron: Það er ekkert að hægjast á honum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×